Við þurfum Karlalistann

Greinar

Æskilegt væri, að stjórnmálaþróunin leiddi fyrr en síðar til myndunar flokks um hin hörðu gildi í þjóðfélaginu. Þau eiga sér engan málsvara, meðan hin spilltu gildi og hin mjúku gildi eiga hvor um sig öfluga fulltrúa, sem ráða þjóðfélaginu með sterkri miðstýringu.

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar eru meira eða minna uppteknir af valdabraski í kvótaráðuneytum og ríkisbönkum og öðrum slíkum valdsöfnunarstofnunum, sem settar hafa verið upp til að reyra þjóðfélagið í viðjar miðstýringar af hálfu embættis- og stjórnmálamanna.

Hrossakaupin einkenna stjórnkerfi hinna hefðbundnu pólitíkusa. Á máli þeirra heita hrossakaupin “að vera í pólitík”. Í því felst það mat þeirra, að hin spilltu gildi séu raunhæf og hagnýt stjórnmál, en önnur gildi séu eins konar óraunhæf óskhyggja skýjaglópa.

Í kerfi hinna spilltu gilda skiptir höfuðmáli, hverjir verða bankastjórar Landsbankans; hvort Samband íslenzkra samvinnufélaga getur fengið ríkisstjórnina til að lækka vaxtabyrðina; og hvort Sambandið getur fengið Landsbankann til að kaupa ónýtu Nígeríuvíxlana.

Þessi spilltu gildi hafa verið á undanhaldi fyrir hinum mjúku gildum Kvennalistans. Þar er ekki spillingunni fyrir að fara, en hins vegar mikið af hugsjónamálum, sem kosta mikla peninga. Hjá Kvennalistanum er fjallað um, hvernig megi dreifa lífsgæðum á réttlátan hátt.

Kvennalisti hinna mjúku gilda er að því leyti líkur stjórnmálaflokkum hinna spilltu gilda, að hann stefnir að sterkri miðstýringu. Gæludýr hans eru bara önnur en gæludýr hinna flokkanna, svo sem einstæðar mæður og börn í stað Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Kvennalistinn vill, að stjórnmál snúist um að hjálpa lítilmagnanum, fremur en aflóga fyrirtækjum. Í hans heimi rennur fjármagnið um hendur félagsmálastofnana til þeirra, sem minnst mega sín. Í heimi hinna flokkanna rennur fjármagnið til þeirra, sem aðstöðu hafa.

Það, sem vantar í þessa mynd, þegar gömlu flokkarnir grotna niður af eigin illverkum, er karlalisti gegn kvennalista, flokkur hinna hörðu gilda til mótvægis mjúku gildunum. Okkur vantar flokk til að stuðla að framleiðslu verðmæta, fremur en dreifingu þeirra.

Flokkur hinna hörðu gilda ætti að stefna að strangri markaðshyggju og gróðahyggju með miskunnarlausu úrvali fyrirtækja, sem hafi næga rekstrarlega þjálfun til að standast samkeppni við umheiminn, meira eða minna frjáls af fjötrum embættis- og stjórnmálamanna.

Flokkur hinna hörðu gilda á að geta sagt með töluverðum rétti, að afrakstur hans aðferða sé meðal annars bezta leiðin til að útvega fjármagn til að kosta hin mjúku gildi á þann hátt, að atvinnulífið sé ekki þess vegna reyrt í viðjar skattheimtu, reglugerða og kvóta.

Flokkur hinna hörðu gilda mun hafna gæludýrum flokka hinna spilltu gilda. Hann hafnar hins vegar ekki gæludýrum flokks hinna mjúku gilda, en bendir á, að þau gæludýr eru dýr í rekstri eins og önnur. Heppilegt sé að framleiða verðmæti upp í kostnaðinn við þau.

Þjóðin er byrjuð að efast um notagildi hinna hefð bundnu stjórnmálaflokka, sem segjast “vera í pólitík”, það er að segja fyrst og fremst í spillingu og valdsöfnun. Hún hefur uppgötvað hin mjúku gildi Kvennalistans, sem nálgast fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum.

Næsta skref er, að þjóðin uppgötvi, að hún þurfi einnig alvöruflokk hinna hörðu gilda, eins konar Karlalista, sem geti verið hentugt mótvægi við Kvennalistann.

Jónas Kristjánsson

DV