Við þurfum meiri röskun.

Greinar

Enn sem fyrr eru Íslendingar á faraldsfæti. Í fyrra fluttust rúmlega ellefu þúsund manns milli sveitarfélaga eða nærri 5% allrar þjóðarinnar. Þetta jafngildir því, að öll þjóðin skipti um sveitarfélag á tuttugu ára fresti.

Síðustu tólf árin þar á undan, það er frá 1971 til 1982, færðu sig raunar tæplega 125 þúsund manns, ekki bara milli sveitarfélaga, heldur milli landshluta. Það voru nærri 60% þjóðarinnar – á aðeins tólf ára tímabili.

Þjóðflutningar Íslendinga fela núna aðeins að litlu leyti í sér sókn fólks til þéttbýlis. Sem dæmi má nefna, að á þessum tólf árum fluttust 9.917 manns frá Vestfjörðum, en 7.687 komu þangað í staðinn. Straumurinn er ekki einhliða.

Þetta er ólíkt því, sem var á fyrri hluta aldarinnar, þegar fólk fluttist unnvörpum úr sveitinni á mölina og þjóðin í heild breyttist úr dreifbýlisþjóð í þéttbýlisþjóð. Þá grisjuðust byggðir og eyddust, svo sem Hornstrandir.

Raunar tæmdust heil kauptún, sem urðu undir í lífsbaráttunni. Fáir muna nú eftir Skálum á Langanesi, Aðalvik og Hesteyri á Vestfjörðum eða Dritvík og Djúpalónssandi á Snæfellsnesi, þar sem eitt sinn var mannlíf í blóma.

Allar aldir hafa Íslendingar verið á faraldsfæti, ekki aðeins milli bæja og dala, heldur landsendanna milli. Þetta sést af manntölum og kirkjubókum. Ein afleiðingin var, að hér mynduðust ekki mállýzkur eins og til dæmis í Noregi.

Raunar urðu Íslendingar til sem þjóð vegna röskunar. Fólk sleit sig frá heimahögum nágrannalandanna og stefndi yfir úthafið á vit hins ókunna. Það var enn öflugri kraftbirting en sú, sem felst í flutningum Íslendinga nútímans.

Í þá daga var ekki rætt um, að sálræn eða félagsleg kreppa fylgdi röskuninni, sem olli upphafi Íslandsbyggðar. Þvert á móti vitum við, að hér blómgaðist fljótlega mun öflugri menning en ríkt hafði í fyrri heimahögum fólksins.

Brezki sagnfræðingurinn Arnold Toynbee heldur því meira að segja fram, að gullöld íslenzkra miðalda hafi verið bein afleiðing hin mikla átaks, sem fólst í að rífa upp rætur sínar og halda út á úfið Atlantshafið.

Nú á tímum sálgæzlu og félagsráðgjafar finnst mörgum hins vegar, að röskun sé af hinu illa. Það er eins og þeir vilji frysta þjóðfélagið í núverandi ástandi og jafnvel færa það aftur á bak til ímyndaðra betri tíma. Meðal annars vilja þeir frysta búsetuna.

Hér á landi eru stundaðar umfangsmiklar og gífurlega kostnaðarsamar tilraunir til að hindra röskunina, sem felst í búferlaflutningum. Undir kjörorði byggðastefnu er reynt að hindra þjóðina í að halda áfram að sækja fram.

Á þessu ári veitir ríkið hálfum öðrum milljarði króna til viðhalds atvinnu við búskap með kýr og kindur. Þar á ofan er varið hundruðum milljóna af opinberu fé til ýmiss konar aðstöðujöfnunar, sem ætlað er að hindra fólk í að flytjast til betri skilyrða.

Þessi frystingarstefna hefur sligað ríkissjóð. Kostnaðurinn skiptir þó minna máli en hin almennt skaðlegu áhrif á atvinnu- og menningarsögu þjóðarinnar. Það sem þjóðin þarf, er röskun, en ekki frysting. Hún þarf að mæta framtíð, en ekki fortíð.

Þær tölur Hagstofunnar, sem hér hafa verið birtar, sýna, að Íslendingar eru óhræddir við röskun og óragir við að flytjast milli landshluta. Þessa kraftbirtingu á ekki að fjötra í viðjar jöfnunar og byggðastefnu, kúa og kinda.

Röskun er framtíð, en frysting er fortíð.

Jónas Kristjánsson.

DV