Við þurfum þolinmæði.

Greinar

Meira fjör færist tæplega í stjórnarmyndunarleikinn, þótt boltinn hafi komizt í hendur Lúðvíks Jósepssonar. Er þó í fersku minni, hversu rösklega hann gekk til verks í fyrra, þegar hann myndaði stjórn fyrir Ólaf Jóhannesson.

Lúðvík situr ekki lengur á þingi og vísaði boltanum áfram til Svavars Gestssonar. Svavar kann að verða fljótari en Steingrímur og Geir að komast að niðurstöðu, en tæpast eins fljótur og Lúðvík hefði orðið.

Leikurinn hefur einfaldazt. Alþýðubandalagið hefur nú síðast flokka lagt fram áætlun um minnkun verðbólgunnar. Í viðræðunum hafa því allir flokkarnir um áþreifanleg atriði að ræða. Þeir ættu þá að geta komið sér að efninu fyrr en ella.

Í rauninni er ekki hægt að sjá, að óyfirstíganlegar hindranir séu milli áætlana flokkanna um minni verðbólgu á þessu ári. Oft hefur sézt samið um svartara en þennan mun. Að því leyti hlýtur stjórnarkreppan að teljast óeðlileg.

Auðvitað fæst niðurstaða að lokum. Einhverjir leiðtoganna munu grafa stríðsaxirnar og koma sér saman eins og menn um myndun þingræðislegrar stjórnar. Þeir munu gera það áður en raddir um utanþingsstjórn verða of háværar.

Ekki skiptir öllu, hvort þetta tekst fyrr eða síðar. Verðbólguáætlanir allra flokkanna eru hvort sem er vettlingatök. Það verða engin þáttaskil, þótt þeir taki við af núverandi stjórnleysi. Við getum því tekið lífinu með ró.

Óskhyggja er kjarni tillagna flokkanna í verðbólgustríðinu. Þær ganga í raun allar út á, að verðbólgan verði bönnuð, að sjúkdómseinkennin verði bönnuð. Þær fela í sér meiri eða minni frystingu á launum og verðlagi.

Áætlanir flokkanna lúta ekki að orsökum sjúkdómsins, svo sem þenslu í opinberum rekstri, óhóflegri seðlaprentun, misnotkun frystifjár í Seðlahankanum og sjálfvirkum peningaaustri til forréttindaatvinnugreina.

Minnzt er á slík atriði í tillögum sumra flokkanna, en þá á marklítinn og óáþreifanlegan hátt. Sú stjórn, sem mynduð verður, er ekki líkleg til að ná meiri árangri gegn verðbólgunni en núverandi starfsstjórn, sem ekkert má gera.

Ýmsar niðurstöður koma til greina, mismunandi sennilegar. Samstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks yrði friðsöm helmingaskiptastjórn við kjötkatlana. Hún gæti enzt út kjörtímabilið, en hún fyndi tæpast lausn á kjördæmamálinu.

Samstjórn Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokks mundi byggjast á auðveldu samkomulagi um verðbólgutillögur. En hún mundi verða að horfa á Alþýðubandalagið leika lausum hala í vinnudeilum og ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu.

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðis-, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks mundi finna lausn á kjördæmamálinu. En illindin milli síðarnefndu flokkanna mundu lama störf hennar alveg eins og vinstri stjórnar.

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags er mun sennilegri, því að þar veit hvor flokkur um sig nokkurn veginn hvar hann hefur hinn. Sú stjórn mundi leysa kjördæmamálið og efla frið og framleiðni í atvinnulífinu.

Geir Hallgrímsson hefur þó rétt fyrir sér, þegar hann mælir með þjóðstjórn. Búast má við öðru og betra samstarfi í þjóðstjórn en þriggja flokka stjórn, enda markmiðin takmarkaðri og starfstíminn styttri.

En þá á enn eftir að taka sinn tíma að finna niðurstöðuna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið