Við töpum og töpum

Greinar

“Það er alveg ljóst, að við erum enn að tapa í stríðinu við gróðureyðinguna,” sagði Ingvi Þorsteinsson, deildarstjóri landnýtingardeildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, í viðtali við DV á laugardaginn. Hann sagði, í viðtalinu, að landeyðingin væri “hrikaleg”.

Talið er, að nú sé eftir um helmingur af gróðurlendinu, sem var hér við landnám. Fyrir nokkrum árum var gizkað á, að árlega töpuðust 1000 hektarar gróðurs. Það er heildartalan, þegar búið er að draga frá landvinninga, sem óneitanlega má sjá á nokkrum stöðum.

Ingvi benti þó á, að víða gengi hraðar að bæta landið en búist hefði verið við og munaði miklu, þegar létti af beit. Nefndi hann sérstaklega þróun gróðurs í Skaftafellssýslum. Hann lagði áherzlu á, að þetta sýndi, hvað sauðfjárbeitin hefur mikil áhrif á gróðurfar.

Rannsóknir á jarðvegi hafa staðfest orð hinna gömlu sagna, að Ísland hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Leifar kolagerðar frá landnámsöld hafa fundizt á Kili, svo að gera má ráð fyrir, að kjarr hafi náð upp í fjöll og að landshlutarnir hafi verið grónir saman yfir Kjöl.

Áður en landnámsmenn komu til skjalanna, voru náttúruöflin að verki í landinu. Eldgos voru ekki fátíðari fyrir landnám en eftir. Samt draup smjör af hverju strái í upphafi landnáms. Ekki er því hægt að kenna náttúruöflunum um, hvernig komið er fyrir landinu.

Með landnámsmönnum kom sauðféð og öxin. Fram á þessa öld var eldiviðartaka mikill þáttur í landeyðingunni, en á tuttugustu öld hefur sauðféð verið að mestu eitt um hituna. Sums staðar er ástandið orðið svo slæmt, að land heldur áfram að fjúka, þótt sauðfé hverfi.

Brýnasta umhverfisverndarmál Íslendinga er að friða afréttir á viðkvæmu móbergssvæði landsins fyrir ágangi sauðfjár. Þetta eru afréttir Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslna og hluti afrétta í ýmsum öðrum sýslum, einkum fyrir norðan Kjöl.

Svo langt eigum við í land, að meirihluti þjóðarinnar telur eðlilegt, að skattgreiðendur og neytendur verji árlega um fimmtán milljörðum króna til að viðhalda ofbeit í landinu, svo að allt landið megi haldast í byggð, eins og sagt er titrandi rómi á hátíðastund.

Svo langt eigum við í land, að sveitarstjórnir á Reykjanessvæðinu nota ekki heimild til að banna lausagöngu búfjár. Í staðinn er ætlazt til, að ríkið láti girða 50 kílómetra leið fyrir 25 milljónir króna, svo að frístundabændur geti haft kindur á beit á þessu illa leikna landi.

Svo langt eigum við í land, að Landgræðsla ríkisins hleypir á vorin sauðfé Mývetninga á gróðurnálar afréttarinnar milli vatns og Jökulsár, þótt landgræðslunni hafi verið trúað fyrir þessu svæði. Þannig er landinu einnig nauðgað af þeim, sem ráðnir eru því til verndar.

Það er engin furða, þótt forsætisráðherra okkar þykist geta barið sér á brjóst og skipað nefndir, sem eiga að undirbúa forustu Íslands í alheimssamtökum umhverfisverndar, þar á meðal að skipuleggja ferðir útlendinga til að skoða ómengað land norður í hafi.

Forsætisráðherra ímyndar sér bara eins og meirihluti þjóðarinnar, að hún sé ekki með allt á hælunum í umhverfismálum. Hann og meirihlutinn gera sér enga grein fyrir, að ástandið er svipað hér og víða í Afríku, þar sem ofbeit eyðir landi með sama hraða og hér.

Nær er að efna til hópferða útlendra til að skoða þjóðarheimskuna, sem felst í að verja 15 milljörðum til viðhalds búskap, sem er að fara með landið til fjandans.

Jónas Kristjánsson

DV