Við vantreystum dómurum

Greinar

Nýlega var maður dæmdur í Héraðsdómi Vesturlands fyrir nokkrar líkamsárásir, þar á meðal nokkur nefbrot. Meðal annars hafði hann barið tvo menn í höfuðið með riffilskefti. Einnig hafði hann misþyrmt manni í bíl, kastað honum út, afklætt hann og úðað á hann málningu.

Þessi mikilvirki, einbeitti og hættulegi ofbeldismaður fékk eins árs fangelsi fyrir þetta allt, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Sami Héraðsdómur Vesturlands dæmdi um svipað leyti unga konu í tveggja ára fangelsi án skilorðs fyrir eina alvarlega, en staka, líkamsárás.

Dómarnir endurspegla misræmi í dómvenju. Annar aðilinn skaðar tólf manns og situr inni í þrjá mánuði. Hinn skaðar einn mann og situr inni í tuttugu og fjóra mánuði. Síðari dómurinn er nokkuð harður, en fyrri dómurinn er langt út af korti venjulegs réttarríkis.

Að undirlagi Hæstaréttar, sem skapar dómvenju, hefur myndazt hefð um, að dómstólar nýti sér ekki refsiheimildir laga í ofbeldismálum, heldur haldi sig við neðri mörk þeirra. Hæstiréttur hefur löngum álitið ofbeldismál langtum ómerkilegri en glæpi á sviði fjármála.

Svo ógeðfellur er Hæstiréttur í ofbeldismálum, að nýlega kvað hann upp málamyndadóm yfir margföldum nauðgara og gaf honum stórfelldan afslátt út á, að hann hefði á nauðgunartímabilinu skaffað fórnardýrinu mat og húsnæði. Slíkir dómarar eru tæpast með réttu ráði.

Dómsmálaráðherra veitti Hæstarétti langþráða áminningu í hátíðaræðu við opnun nýs dómhúss réttarins. Slík áminning er nauðsynleg gagnvart almenningi til að sýna vilja í pólitíska geiranum, en hefur lítil áhrif á afturhaldsliðið í Hæstarétti. Meira þarf til.

Af gefnum tilefnum Hæstaréttar ber Alþingi að setja sérstök lög um þrengda möguleika dómstóla til að gæla við síbrotamenn. Í nýju lögunum verði skýrar skilgreint svigrúmið, sem dómstólar hafi, úr því að þeim er ekki treystandi til að nota það svigrúm, sem nú er til.

Í nýju lögunum ber að þrengja svigrúm dóma yfir síbrotamönnum í ofbeldismálum upp að efri mörkum núverandi svigrúms. Hins vegar má þrengja svigrúm dóma yfir peningabrotamönnum niður að neðri mörkum núverandi svigrúms. Fólk á að vera mikilvægara en fé.

Í lögunum ber einnig að gæta hagsmuna fórnardýra ofbeldismanna með því að skylda dómstóla til að úrskurða mun hærri skaðabótagreiðslur en nú og fela ríkisvaldinu að greiða fórnardýrunum peningana og reyna síðan sjálft að innheimta þá hjá ofbeldislýðnum.

Við verðum að taka afleiðingunum af því, að Hæstiréttur og héraðsdómstólar fást ekki til að breyta venjum sínum, þrátt fyrir mikla og sívaxandi fyrirlitningu utan úr bæ. Við verðum að taka afleiðingunum af því, að við vantreystum réttilega þessum stofnunum.

Ef við látum yfir okkur ganga héraðsdóma og Hæstaréttardóma, sem stríða gegn réttlætiskennd fólksins í landinu, hættum við á, að tilfinning fólks fyrir lögum og rétti grotni niður. Á meðan fremja Hæstiréttur og einstakir héraðsdómar ný afglöp, sem gera fólk agndofa.

Þjóðfélagið hefur verið að breytast hratt á undanförnum árum. Ungir afbrotamenn eru skipulagðari og miskunnarlausari en áður tíðkaðist. Notkun fíkniefna hefur aukizt og fjölgað ofbeldisglæpum. Á sama tíma krefst þjóðfélagið aukinnar virðingar við líf og limi fólks.

Til að mæta breytingunum og tregðu dómstóla þarf Alþingi að breyta refsiákvæðum laga og gera ríkisvaldið að millilið í greiðslum skaðabóta vegna ofbeldis.

Jónas Kristjánsson

DV