Við viljum bara fríverzlun

Greinar

Ekki kemur til mála, að Ísland gerist ótilneytt aðili að Evrópubandalaginu, jafnvel þótt skoðanakönnun sýni, að fleiri séu fylgjandi aðild en henni andvígir. Hlutföllin mundu breytast, ef þjóðin stæði andspænis því að þurfa að taka raunverulega afstöðu í málinu.

Auðvelt er að spá um framvindu málsins, ef ráðamenn teldu aðild hugsanlega og vildu láta kjósa um hana. Evrópubandalagið kæmist þá loks í sviðsljósið í þjóðmálaumræðunni og flestir skoðanamyndandi aðilar mundu leggja lóð sitt á vogarskál andstöðunnar.

Engar líkur eru á, að málið nái svo langt. Í stjórnmálaflokkunum ríkir ekki áhugi á aðild, þótt kjósendur Alþýðuflokksins séu taldir hlynntir aðild. Það endurspeglar aðeins hefðbundna alþjóðahyggju í þeim flokki, en er ekki merki um sérstakt dálæti á bandalaginu.

Formaður Alþýðuflokksins er Jón Baldvin Hanni-alsson utanríkisráðherra. Hann hefur lýst afstöðu sinni, sem er alveg samhljóða áliti flestra annarra, er um málið hafa fjallað, þar á meðal þessa dagblaðs, að þátttaka í Evrópubandalaginu komi ekki til greina.

Meðferð málsins í höndum utanríkisráðherra er aðferða líklegust til að ná árangri í varðveizlu hagsmuna Íslands gagnvart umheiminum. Okkur kemur bezt, að verzlun milli landa sé sem frjálsust, en höfum minni áhuga á nánari sambræðslu ríkja í stærri heildir.

Fríverzlunarsamtök Evrópu eru sú tegund samstarfs, sem hentar okkur bezt. Við eigum að taka sem öflugastan þátt í því samstarfi og hvetja til, að þau samtök geri fríverzlunarsamninga við Evrópubandalagið. Og það er einmitt þetta, sem okkar menn eru að gera.

Fríverzlunarsamtökin eru ekki fullkomin, frekar en önnur mannanna verk. En þau hafa tekið undir sjónarmið okkar, að verzlun með fisk og fiskafurðir eigi að vera frjáls eins og verzlun með aðrar vörur. Og þau veifa þeirri skoðun í viðræðum við Evrópubandalagið.

Við eigum jafnframt að efla beinar, tvíhliða viðræður við ráðamenn einstakra landa innan Evrópubandalagsins til að grafa undan þeirri stefnu, að frjáls verzlun með fisk og fiskafurðir skuli vera háð aðgangi erlendra aðila að fiskimiðum. Það hafa okkar menn einmitt gert.

Við höfum ágæta röksemdafærslu í, að frjáls fiskverzlun annars skuli koma á móti frjálsri fiskverzlun hins og að leyfi til fiskveiða hjá öðrum skuli koma á móti leyfi til fiskveiða hjá hinum. Þetta tvennt þarf að skilja í sundur og ræða hvort í sínu lagi.

Tvær grímur renna á viðræðuaðila okkar í löndum Evrópubandalagsins, þegar þeir eru spurðir, hvaða veiðiheimildir þeir bjóði okkar skipum í skiptum fyrir veiðiheimildir okkar handa þeirra skipum. Þeir sjá fljótt, að krafa þeirra um veiðiheimildir er tvíeggjuð.

Í stórum dráttum virðist vel á þessum málum haldið, bæði af hálfu utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins, þótt utanríkisráðherra hafi látið fram hjá sér fara áróðurstækifæri, sem honum bauðst í haust við hingaðkomu 50 aðalritstjóra af Norðurlöndum.

Við eigum að halda áfram núverandi stefnu í milliríkjaviðskiptum. Hún hefur gefizt okkur vel og mun áfram reynast okkur farsæl í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV