Víða leynist gjaldeyrir.

Greinar

Árum saman hafa Íslendingar haft ómældan arð af alþjóðlegri flugstjórn á Atlantshafi og Dumbshafi milli Noregs og Grænlands alla leið til norðurpóls. Alþjóða flugmálastofnunin hefur greitt vel fyrir þessa þjónustu.

Ríkið hefur beinan hagnað af þessu. Þar að auki hafa margir menn hálaunaðar stöður við flugstjórn og greiða tilsvarandi háa skatta til hins opinbera. Þannig græðir ríkið tvisvar á að veita þessa nauðsynlegu þjónustu.

Þetta er gott dæmi um, að miklar gjaldeyristekjur má hafa af fleiru en fisksölu í útlöndum. Fiskurinn er að vísu og verður hornsteinninn, en hann er þegar afar mikið nýttur. Við þurfum fleiri þætti til að lifa á í framtíðinni.

Í kjölfar þátttöku 10.000 manna í alþjóðlegu móti íslenzkra hesta í Þýzkalandi höfum við verið minntir á gífurlegar tekjur, sem við höfum beint og óbeint af hestasölu. Í ár hafa 230 hestar verið seldir á 10 milljónir króna.

Jafnframt hefur aukizt sala á lopapeysum til erlendra hestaeigenda og meira að segja sala á íslenzkum hreinræktarhundum. Yfir 300 slíkir hafa verið seldir og er verðið nú 8.000 krónur á hundinn heima í hlaði.

Þá hefur verið áætlað, að erlendir ferðamenn, sem hingað hafa komið á þessu ári vegna íslenzka hestsins eingöngu, hafi varið hér rúmlega 40 milljónum króna. Það munar um allar þessar tölur, þegar gjaldeyrisdæmi þjóðarinnar er gert upp.

Um langt skeið hafa íslenzkir verkfræðingar selt þjónustu til útlanda. Sérstakt fyrirtæki hefur verið stofnað til að efla þessi viðskipti. Íslenzkir verkfræðingar hafa smám saman unnið sér traust, einkum í jarðhitafræðum.

Sérfræðiþjónusta er dýr. Hún fjölgar hátekjumönnum, sem greiða háa skatta og eru umhverfi sínu þarfir á annan hátt. Þeir hafa tiltölulega mikinn kaupmátt og auka því veltuna í þjóðfélaginu á vöru, þjónustu og menningu.

Á síðasta ári voru 115 sjúklingar fluttir til hjartaskurðaðgerða í útlöndum á kostnað hins opinbera. Í Bandaríkjunum er kostnaður á sjúkling 400-900 þúsund krónur. Það er dýrt að leyfa sér að nýta erlenda sérhæfingu.

Íslenzkir læknar segjast geta þetta sjálfir og vilja flytja hjartaskurðaðgerðirnar heim. Skrifstofa ríkisspítalanna hefur reiknað út, að með sjö ára afskriftatíma mundi arður ríkisins af þessu nema 20% á ári.

Þetta mundi einnig spara gjaldeyri og fjölga íslenzkum hátekjumönnum. Gera má ráð fyrir, að ríkið nái í beinum og óbeinum sköttum til baka um helmingi af launum læknanna. Hinn óbeini hagnaður ríkisins yrði því mun meiri en tölurnar sýna.

Því miður er ekki til handbært fé til að ráðast í hinn mjög svo arðbæra innflutning þessarar dýru sérfræðiþjónustu. Ríkið hefur ekki efni á að spara á þessu sviði og einstaklingar hafa ekki bolmagn til að koma upp þjónustunni.

Á Bretlandi og Írlandi eru heilsugæzlustofnanir í eigu hins opinbera og einstaklinga farnar að bjóða útlendingum þjónustu framhjá eigin heilbrigðiskerfi. Þetta hefur reynzt arðbær þjónusta og ætti að verða okkur til fyrirmyndar.

Við getum fengið fleiri íslenzka lækna frá útlöndum og hreinlega lagt fé í að byggja upp heilsugæzlustofnanir handa erlendu fólki til að auka gjaldeyristekjur okkar og til að fjölga hátekju- og háskattamönnum heima fyrir.

Jónas Kristjánsson.

DV