Víðerni allra landsmanna

Greinar

Tafirnar, sem orðið hafa á friðlýsingu vatnasviðs þjóðgarðsins á Þingvöllum, stafa af hagsmunagæzlu fjögurra sveitarfélaga, sem liggja að svæðinu. Þær eru forsmekkur vandamálanna, sem munu skapast, ef aðliggjandi sveitarfélög fá lögsögu á miðhálendi Íslands.

Miðhálendið er ein helzta auðlind þjóðarinnar og samkvæmt dómsúrskurðum að mestu leyti ekki í eigu neins aðila, ekki ríkis, ekki sveitarfélaga og ekki einstakra bújarða. Umhverfisráðherra stefnir að því, að fjörutíu sauðfjár-sveitarfélög fái lögsögu yfir þessu svæði.

Hagsmunir sveitarfélaganna fjörutíu hafa lengst af tengst upprekstri sauðfjár og ofbeit á þessu svæði. Þeir eru algerlega andstæðir þjóðarhagsmunum, sem fyrst og fremst tengjast nýtingu hins ósnortna víðernis sem uppsprettu endurnæringar og gjaldeyristekna.

Ferðamannaþjónusta skiptir okkur meira máli en sauðfjárrækt. Ferðamenn skapa verðmæti, en sauðfé eyðir þeim. Erlendir ferðamenn eru svo mikilvægir, að tekjur af núverandi og fyrirhugaðri stóriðju og orkuverum tengdum þeim blikna í samanburði við þá.

Enn er tími til að koma í veg fyrir lögsögu sveitarfélaganna fjörutíu. Alþingismenn stjórnarflokkanna verða að fara að átta sig á skaðræðisáhrifum núverandi umhverfisráðherra og byrja að vinda ofan af þeim, áður en kemur að skuldaskilum í næstu þingkosningum.

Bezt væri, ef kjósendur í Reykjavík og í Reykjanesumdæmi stilltu þingmönnum sínum upp við vegg og segðu við þá: “Þið hafið löngum leyft ótrúlegustu dreifbýlishagsmunum að vaða uppi. Nú er nóg komið. Við sem kjósendur segjum ykkur öllum upp störfum.”

Fyrirhuguð lögsaga fjörutíu sauðfjár-sveitarfélaga á miðhálendinu er kjörið tækifæri fyrir kjósendur í öðrum sveitarfélögum til að byrja að segja: “Nei, takk, nú verður ekki gengið lengra.” Mismununin í máli þessu er svo augljós, að ekki verður unnt að verja hana.

Við væntanlega og nauðsynlega stefnubreytingu er brýnt, að miðhálendið verði gert að sameign þjóðarinnar allrar, en ekki fjörutíu sveitarfélaga. Það verður bezt gert með lögsögu ríkisins, sem er eini aðilinn í landinu, sem hefur umboð fyrir alla landsmenn.

Ennfremur er brýnt, að ráðamenn fari að átta sig á, að tekjur þjóðarinnar af margvíslegu raski á miðhálendinu vegna orkuvera og stóriðju eru ekki nema hluti af tekjum þjóðarinnar af ferðamönnum, sem fremur vilja sjá ósnortið víðerni en stíflugarða og raforkulínur.

Hingað til hefur Landsvirkjun hagað sér eins og hún eigi miðhálendið. Hún hefur lagt þar línur kruss og þvers. Hún hefur búið til steindauð miðlunarlón með breytilegu vatnsyfirborði og viljað kaffæra alþjóðlega viðurkennd náttúruundur á borð við Þjórsárver.

Frá því að Landsvirkjun var fyrst leyft að leika lausum hala hefur tvennt gerzt í senn. Í fyrsta lagi hefur orðið hugarfarsbreyting, sem felur í sér, að fólk tekur ósnorið víðerni fram yfir stóriðju. Í öðru lagi hafa menn áttað sig á, að tekjudæmið er annað en ætlað var.

Við þetta bætist, að íslenzka ríkið hefur tekið á sig fjölþjóðlegar skuldbindingar um minnkaða losun skaðlegra lofttegunda á borð við þær, sem koma frá stóriðju. Erfitt verður að standa við skriflegu loforðin nema kúvending verði í umhverfismálum landsins.

Undanfarin ár hefur orðið veruleg hugarfarsbreyting þjóðarinnar í umhverfismálum. Þeirrar breytingar þarf nú að fara að sjá stað í stjórnsýslu og lagasetningu.

Jónas Kristjánsson

DV