Viðey í góðum höndum

Greinar

Þegar ríkið ákvað að gefa Reykjavík Viðeyjarstofu, Viðeyjarkirkju og ríkislandið í Viðey, var það sagt vera bjarnargreiði. Þar með kæmi ríkið yfir á borgina dýru verkefni, endurreisn gamalla húsa, sem hafði gengið afar hægt á vegum ríkisins, svo að ekki sé meira sagt.

Hins vegar mun koma í ljós, að verkefni þetta er í góðum höndum. Við móttöku gjafarinnar sagði borgarstjóri, að ekki mætti taka lengri tíma að gera upp Viðeyjarstofu en að reisa hana á sínum tíma. Ætti viðgerð hennar að ljúka að tveimur árum liðnum.

Borgin ráðgerir, að síðan muni taka tvö ár til viðbótar að gera við kirkjuna í Viðey. Má því reikna með, að mannvirki Skúla fógeta Magnússonar verði aftur komin í fulla reisn árið 1990, 238 árum eftir að hann hóf hinar merku menningarsögulegu framkvæmdir.

Ríkið hefur aldrei sýnt þjóðminjum sínum nægan sóma. Sem dæmi um það má nefna tvö af elztu steinhúsum landsins, Viðeyjarstofu og Nesstofu. Lagfæring síðara hússins hefur gengið nokkru hraðar, enda hefur ríkið þar notið aðstoðar ýmissa félagasamtaka.

Viðeyjarstofa hefur setið á hakanum, þótt nokkuð hafi þar einnig verið gert, einkum til að verja húsið skemmdum. Almennt má segja, að tímabært sé, að ríkisvaldið endurskoði menningarsögulega stefnu sína og kanni, hvernig stendur á fátæktinni á því sviði.

Hægagangurinn í Viðeyjarstofu er einkar hliðstæður þeim, sem ríkt hefur undanfarin ár við byggingu Þjóðarbókhlöðunnar, sem átti að vera gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar. Þar hafa framkvæmdir meira eða minna legið niðri.

Reykjavíkurborg hefur löngum haft markvissari stefnu í menningarsögulegum efnum. Árbæjarsafn er einn þátturinn, sem ber vitni um það. Þar er risið heilt hverfi merkra húsa frá fyrri tímum, ánægjuleg vin heimamönnum og gestum utan af landi og frá útlöndum.

Eðlilegar skýringar kunna að vera á misjöfnu ríkidæmi borgar og ríkis, þegar að menningarsögulegum atriðum kemur. En alténd verður að telja vel til fundið að fela Reykjavík að sjá um Viðeyjarstofu. Ríkið getur þeim mun frekar einbeitt sér að hinu húsinu, Nesstofu.

Reykjavík hefur nú eignazt elzta hús borgarinnar og eitt af elztu steinhúsum landsins. Það er merkur minnisvarði um byggingarsöguna í landinu og borginni. Borgarstjóri lofaði þegar við móttökuna, að hendur yrðu látnar standa fram úr ermum við endurreisnina.

Landið í Viðey er einnig menningarsögulega merkileg eign. Eyjan var lengst af hinn kunni hluti borgarlandsins, meðan Reykjavík var í gleymsku og dái. Klaustur og menntasetur var í Viðey allt frá 1226. Þar voru skráð fornrit, svo sem Styrmisbók Landnámu.

Oft gleymist, að ekki er langt síðan töluvert athafnalíf var í Viðey. Þar hafði Milljónafélagið mikil umsvif árin 1907-1914 og þá var í Viðey sæmilegt þorp á íslenzkan mælikvarða. Þá voru austan í eynni tvær hafskipabryggjur meðan enn var engin í Reykjavíkurhöfn.

Borgin hyggst efna til hugmyndasamkeppni um notkun Viðeyjar í framtíðinni. Það er spennandi viðfangs efni, því að margra kosta er völ. Eyjan hefur til dæmis þá sérstöðu að vera í senn nálægt og fjarri, af því að hún býr við frið fyrir ys og þys bílaumferðar.

Viðeyjargjöfin er ekki bjarnargreiði, ekki lævís aðferð til að koma kostnaði af ríki yfir á borg. Hún er einfaldlega tilraun til að koma málinu í góðar hendur.

Jónas Kristjánsson

DV