Frá Hofi í Norðfirði um Viðfjörð og Barðsnes og Vöðlavík til Stóru-Breiðuvíkur í Reyðarfirði.
Stikuð leið og greiðfær. Nafn Viðfjarðar stafar af miklum við, sem þar rekur á fjöru. Hér gerðust Viðfjarðarundrin, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði um. Þar lýsir hann dularfullum fyrirbærum í æsku Huldu, sem Þórbergur kallaði Viðfjarðar-Skottu. Í frásögn Þórbergs er líka fjallað um fyrirbæri í Viðfirði frá fyrri öldum. Á Sveinsstöðum í Hellisfirði var rekin norsk hvalveiðistöð 1901-1913 og voru þar dregnir á land 1243 hvalir.
Förum frá Hof um jeppaveg suðvestur yfir dalinn í Grænanes og síðan austur fyrir Hellisfjarðarmúla. Þar liggur reiðleið um Norðfjarðarskriður austur á Götuhjalla og síðan niður að eyðibýlinu Sveinsstöðum í Hellisfirði. Förum inn fjörðinn og áfram út með honum að sunnanverðu um Hellisfjarðarströnd undir Viðfjarðarmúla. Síðan yfir Nesháls og suður Viðfjörð að eyðibýlinu Viðfirði við fjarðarbotn. Þaðan tökum við krók með austurströnd Viðfjarðar út Barðsnes að eyðibýlinu Barðsnesi og til baka aftur. Frá Viðfirði förum við síðan á jeppavegi suðvestur með Viðfjarðará og upp í skarðið Dys milli Vindhálsaxlar að vestan og Súlna að austan. Þar erum við i 360 metra hæð. Við förum síðan áfram suður um Lönguhlíð á Víkurheiði. Okkar leið á Víkurheiði sveigir til suðvesturs fyrir norðan Víkurvatn og sunnan við Búrfell, þar sem við förum upp í 400 metra hæð. Síðan til vesturs niður brekkurnar í Reyðarfjörð og loks til suðurs niður að sjó að þjóðvegi 954 við Stóru-Breiðuvík.
43,3 km
Austfirðir
Nálægar leiðir: Tregaskarð, Fönn, Drangaskarð, Sandvíkurskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort