Viðræðuhæfur á einu sumri

Fjölmiðlun

Guðrún P. Helgadóttir íslenzkukennari bar sig sem drottning, sem dáleiddi lítilmótlega þegna sína. Kenndi einkum í formi undirbúnings fyrir landspróf. Lét okkur taka hvert gamla landsprófið á fætur öðru. Hamraði inn varnir gegn algengustu villum. Ég lærði rosalega vel hjá henni, hlustaði opinmynntur á allt, sem hún sagði. Útkoman var, að nemendur hennar fengu flestir háar einkunnir á samræmdu landsprófi í íslenzku. Í menntaskóla tók hún svo á móti mér og sagði í fyrsta tímanum: “Nú loksins er hægt að fara að tala við yður.” (Úr bókinni: Jónas Kristjánsson: Frjáls og Óháður, 2009)