Skýrt hefur verið frá dæmi, sem styður fullyrðingu Baulu um, að Mjólkursamsalan bjóði kaupmönnum afslátt, ef þeir hætti að selja vörur frá Baulu. Þetta dæmi er í stíl miður skemmtilegra viðskiptahátta, sem hafa einkennt þetta einokunarfyrirtæki áratugum saman.
Mjólkursamsalan hefur notað einokunaraðstöðu sína til að halda niðri keppinautum og til að ryðjast inn á nýja markaði. Þannig breyttist ís úr dýrri vöru í ódýra, þegar Kjörís fór að keppa við Mjólkursamsöluna. Þannig setti hún upp eina stærstu brauðgerð landsins.
Rekstur Mjólkursamsölunnar er víðtækur og reikningar hennar á þann veg, að erfitt er að meta, hvaða kostnaður fylgir hvaða vörutegund. Auðvelt er fyrir hana að meta tiltölulega hátt þann kostnað, sem fylgir vörum, sem eru niðurgreiddar af skattgreiðendum.
Þetta þýðir, að auðvelt er að meta tiltölulega lágt þann kostnað, er fylgir vörum, sem eru í samkeppni við vörur annarra. Þetta gildir um ýmsan vélakost, svo sem átöppunarvélar, sem notaðar eru fyrir mjólk og safa. Þetta gildir um flutninga vörunnar til smásala.
Ef Mjólkursamsalan metur tiltölulega hátt kostnað sinn við niðurgreiðslu- og einokunarvörur á borð við mjólk, hefur það áhrif til hækkunar á útreikningum kerfisins á því, hversu dýr mjólk skuli vera. Mjólkursamsalan fær þennan meinta kostnað greiddan að fullu.
Gróðann af þessu getur Mjólkursamsalan svo flutt til og notað til að greiða niður þær vörur sínar, sem eru í samkeppni við aðra, svo sem brauð, ávaxtasafa, ís og jógúrt. Þannig getur hún með tilfærslum náð óeðlilegri samkeppnisaðstöðu og bolað öðrum út af markaði.
Á sínum tíma koma greinilega í ljós, að fæðing Kjöríss leiddi skyndilega til þess, að ís Mjólkursamsölunnar hætti að hækka í takt við aðrar vörur hennar og er nú orðinn að tiltölulega ódýrri vöru. Jafnframt hefur hún reynt að bola Kjörís burt með að kaupa upp ísbúðir.
Á fleiri sviðum hefur komið í ljós, að Mjólkursamsalan hundsar hagsmuni neytenda. Með myndatöku tókst á sínum tíma að sanna, að hún dagstimplaði mjólk átta daga fram í tímann, þótt aðeins þrír dagar væru leyfilegir og alls fjórir með undanþágu heilbrigðisyfirvalda.
Einokunaraðstöðu sína hefur Mjólkursamsalan meðal annars notað til að reisa sér mikið musteri á Bitruhálsi. Sú höll er reist á kostnað mjólkurneytenda samkvæmt áðurnefndu útreikningskerfi, sem færir Mjólkursamsölunni gríðarlegt mjólkurverð á silfurdiski.
Í höllinni eru brugguð ráð, sem sífellt leiða til kvartana um óeðlilega viðskiptahætti af hálfu Mjólkursamsölunnar. Kaupmenn hafa kvartað um, að hún hóti lélegri og seinni afgreiðslu á mjólkurvörum, ef þeir hossi ekki brauðum hennar á kostnað brauða frá bökurum.
Mesta furða er, að Kjörís skuli árum saman hafa lifað af óframkvæmanlega samkeppni við Mjólkursamsöluna. Og engin furða er, þótt Baula sé að kikna undan samkeppninni. Ef þessi tvö fyrirtæki hverfa, getur Mjólkursamsalan að nýju hækkað verð á ís og jógúrt.
Á tímum markaðsbúskapar er Mjólkursamsalan alger tímaskekkja í atvinnulífinu. Markaðshyggjumenn ættu að beina kröftum sínum að afnámi hennar í stað þess að sóa þeim í tilraunir til að búa til einkaeinokun úr ríkiseinokun í stíl Bifreiðaskoðunar Íslands.
Ef vinnsla, dreifing og sala á mjólkurvörum verður frjáls, mun verð þeirra lækka, því að þá þurfa neytendur ekki að greiða stríðskostnað Mjólkursamsölunnar.
Jónas Kristjánsson
DV