Viðskiptasiðferði

Greinar

Hafskipsmálið hefur í nokkrar vikur verið í sérkennilegri biðstöðu. Ekki er vitað, hvort einhverjir þeirra, sem setið hafa í gæzluvarðhaldi, verða kærðir og fyrir hvað. Lekinn úr rannsókninni er of óljós og þversagnakenndur til að núna sé hægt að hafa á því skoðun.

Annars vegar er sagt, að ný og alvarleg atriði séu sífellt að koma í ljós og rannsóknin verði stöðugt umfangsmeiri, enda hafi yfirheyrslur verið tíðar og ítarlegar. Hins vegar er sagt, að yfirheyrslur hafi verið stopular, stuttar og spurningar rýrar að innihaldi.

Meðan ástandið er slíkt er tómt mál að tala um viðskiptasiðferði þeirra, sem í hlut eiga. Hins vegar getur verið hentugt tækifæri að fjalla um á almennan hátt, hvernig siðferði eigi að vera í viðskiptum, án þess að þær hugleiðingar beinist að neinum sérstökum.

Ferðalög forstjóra í Concorde-þotu og gisting á dýrum hótelum eru ekki mikið málsefni. Í viðskiptum getur verið nauðsynlegt að sýna reisn, einkum þegar mikið er í húfi. Kostnaður við slíkt hlýtur að vera matsatriði eftir efnum og ástæðum hverju sinni.

Ef kostnaður við ferðalög og risnu fer hins vegar úr þeim ramma að vera í þágu fyrirtækisins, til dæmis á þann hátt, að borgað sé fyrir ferðir maka eða ferðaþætti, sem flokkast undir sumarfrí, hlýtur málið að verða alvarlegra frá sjónarmiði þeirra, sem borga.

Einkaneyzla stjórnenda framhjá launum varðar ekki aðeins hluthafa í hlutafélögum, félagsmenn í samvinnufélögum og skattborgara, þegar um embættismenn er að ræða, heldur einnig þjóðfélagið í heild, ef það verður af skatttekjum vegna brots á framtalsskyldu.

Gjafir flokkast eins. Þar getur verið um að ræða, að ráðherrum eða seðlabankastjórum sé boðið í laxveiði eða í ferðalag til Nizza í einkaerindum; að seðlabankastjóra sé gefið málverk, sem kostar yfir hálfa milljón; eða að verkalýðsforingja sé gefinn fátæktarstyrkur.

Í öllum slíkum tilvikum bilar hvort tveggja, siðferði þeirra, sem gefa, og hinna, sem þiggja. Bresturinn er alvarlegastur, ef stórgjafir eru ekki taldar fram til skatts. Smágjafir mega liggja milli hluta, en ekki þær, sem skipta tugum og jafnvel hundruðum þúsunda króna.

Jafnvel þótt slíkar gjafir séu skilmerkilega bókaðar, situr eftir, að valdaaðilar eins og ráðherrar eða seðlabankastjórar eða verkalýðsleiðtogar geta ekki leyft sér að þiggja þær, ef hugsanlegt getur verið, að vottur af óbeinni hagsmunagæzlu liggi að baki gjafmildinnar.

Afsláttur, sem fyrirtæki veita hvert öðru, flokkast ekki undir slíkar gjafir, ef hann er færður til bókar hjá fyrirtækjunum. Ef hann rennur hins vegar í vasa stjórnanda fyrirtækisins, sem afsláttinn fær, getur hann bæði verið að hafa fé af fyrirtækinu og skattstofunni.

Ef stjórnendur reynast hafa hagrætt bókhaldi fyrirtækis með því að breyta skjölum eða láta þau hverfa, er brot þeirra mjög alvarlegt. Hins vegar er tiltölulega lítilfjörlegt, ef þeir hafa bara sýnt óhæfilega bjartsýni í eignamati, bókhaldi og skýrslugerð.

Af hinum fjölbreytta og afar misjafna siðferðisbresti, sem hér hefur verið fjallað um, er forvitnilegast að staðnæmast við greiðslu fyrirtækja og stofnana á einkakostnaði stjórnenda framhjá skatti. Ráðherrabílarnir voru löngum frægasta dæmið um þá þjóðaríþrótt.

Á þessu stigi er ekki vitað, hversu mikill siðferðisbrestur er í Hafskipsmálinu. En það mál hefur þó varpað ljósi á útbreiddan skort á viðskiptasiðferði í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV