Fjármálakreppa Suðaustur-Asíu mun hafa meiri áhrif á íslenzkan þjóðarhag en stjórnendur útflutningsfyrirtækja hafa hingað til viljað vera láta. Gengi gjaldmiðils þessara viðskipta, japanska jensins, lækkaði um fimmtung á síðasta ári og mun áfram falla á þessu ári.
Sjávarvara okkar er yfirleitt seld fyrir jen til Japans. Minna fæst nú fyrir jenin og enn minna mun fást á næstunni. Þar sem Japansmarkaður er um tólf prósent af utanríkisviðskiptum okkar, veldur gengislækkun jensins rúmlega 2% verri viðskiptakjörum okkar í heild.
Japanar sitja um þessar mundir í tvöfaldri súpu. Þeir hafa í fyrsta lagi lánað nágrönnum sínum meira fé en góðu hófi gegnir. Mikið af því fer í súginn, þegar skuldunautarnir verða gjaldþrota eða verða að fá afslátt af greiðsluskuldbindingum til að komast hjá gjaldþroti.
Í öðru lagi þurfa Japanar að keppa við þjóðir, þar sem gengi gjaldmiðilsins hefur lækkað enn meira. Þær þjóðir geta því undirboðið Japana á mörkuðum og náð frá þeim viðskiptum í skjóli gengislækkana. Þær gera þjóðir samkeppnishæfari í viðskiptum á kostnað lífskjaranna.
Ef Japanar lækka verð í útflutningi til að mæta samkeppninni, munum við sem viðskiptamenn njóta þess. Það kemur að hluta á móti verðlækkun íslenzkra útflutningsafurða, en vegur léttar, þar sem innflutningur þaðan er aðeins hálfdrættingur á við útflutninginn.
Japanar eru rík þjóð, sem stendur traustum fótum. Vandræði þeirra um þessar mundir stafa fyrst og fremst af enn meiri vandræðum nágrannaþjóðanna. Þar hafa valdhafar hagað sér mjög ógætilega, með stuðningi lánardrottna, einkum japanskra og vestrænna.
Framleidd hafði verið ímynd austrænna gilda, sem væru betri en vestræn. Þau væru arfur frá Konfúsíusi. Þau fælust meðal annars í, að undirmenn hlýddu yfirboðurum sínum skilyrðislaust. Einkum fælust þau í, að menn væri ekki borgarar, heldur þegnar yfirvalda.
Erlendir fjárfestar fögnuðu þessum gildum, enda telja þeir harðstjórn yfirleitt til fyrirmyndar. Þar sem almenningi sé ekki hleypt upp á dekk sé gott að ávaxta fé. Þeir eru svo skammsýnir, að þeir átta sig ekki á pólitískri eða peningalegri sprengihættu af harðstjórn.
Árum saman hafa fjölmiðlar þó upplýst, að ekki hefur allt verið með felldu í hinum svonefndu tígrisríkjum Suðaustur-Asíu. Í Suður-Kóreu, Indónesíu, Malasíu og raunar víðar hefur stóru og smáu verið stjórnað af kolkröbbum risafyrirtækja og stjórnmálaafla.
Samkrull stjórnmála, fjármála og efnahagsmála leiddi til niðurstöðu, sem ekki hefði orðið við vestræna valddreifingu, þar sem sérhvert afl á sér mótvægi í öðru afli. Í tígrisríkjum austursins lagðist allt afl á sömu sveifina. Þegar eitt spil brást, hrundi öll spilaborgin.
Indónesía er í rauninni orðið gjaldþrota ríki, sem haldið er uppi með sjónhverfingum fjölþjóðabanka. Suður-Kórea mun væntanlega finna botninn í feninu og geta klórað í bakkann. Borgríkin Singapúr og Hong Kong munu láta verulega á sjá, þegar líður fram á þetta ár.
Einna mestu máli skiptir, að Kína mun bíða hnekki í þessum sviptingum. Það er einkennisland hinna austrænu gilda, þar sem menn hlýða yfirvöldum og allt vald er hjá kolkröbbunum. Þar hefur gífurleg fjárfesting farið forgörðum, en fjárfestar reynt að halda því leyndu.
Meira en tveir þriðju hlutar viðskiptatekna okkar koma frá Vestur-Evrópu. Kreppa Suðaustur-Asíu mun beina sjónum okkar enn betur að nágrönnum okkar.
Jónas Kristjánsson
DV