Viðurkennum Litháen

Greinar

Íslenzka ríkinu væri sómi að því að verða fyrsta ríkið til að viðurkenna Litháen formlega sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Slíkt mundi sýna landsfeðrum annarra ríkja, að formleg viðurkenning væri framkvæmanlegur og raunar einnig skynsamlegur leikur í stöðunni.

Skiljanlegt er, að Bandaríkin vilji ekki strax viðurkenna Litháen, þar sem þau eru komin í óformlegt bandalag við Sovétríkin um að liðka sem mest fyrir valdsöfnun Gorbatsjovs í Kreml og vilja ekki gera neitt, sem hugsanlega gæti eflt harðlínumenn gegn honum.

Hins vegar er marklaust, þegar talsmenn Bandaríkjanna og nokkurra annarra ríkja, svo sem Frakklands og Danmerkur, afsaka stjórnir sínar með, að þessi ríki hafi á sínum tíma ekki viðurkennt innlimun Litháens í Sovétríkin og þurfi því ekki að viðurkenna fullveldi nú.

Slík röksemdafærsla heitir hundalógík og er í þessu tilviki notuð til að reyna að breiða yfir þá staðreynd, að Vesturlönd virðast ófær um að taka siðferðilega rétt á málum Litháa, sem eiga alveg sama rétt til sjálfstæðis og fullveldis og Pólverjar, Tékkar og Ungverjar.

Ef ríki, sem á siðferðilegan og sögulegan rétt á sjálfstæði og fullveldi, lýsir því formlega yfir, ber öllum þjóðum, sem viðurkenna slíkan rétt, að senda formlega yfirlýsingu um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi þess. Allt annað er orðhengilsháttur og aumingjaskapur.

Flest ríki Vestur-Evrópu hafa engra þeirra ímynduðu heimspólitísku hagsmuna að gæta, að landsfeður þeirra þurfi að hafa gott veður í kringum Gorbatsjov. Sérstaklega gildir þetta um Norðurlandabúa, sem hafa löngum litið á sig sem siðapostula og prédikara í umheiminum.

Raunar ættu Svíar og Finnar að hafa frumkvæði að formlegri viðurkenningu Norðurlanda á sjálfstæði og fullveldi Litháens, því að þeir eru nágrannar Litháa við Eystrasalt. Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda í Svíþjóð í gær var kjörið tækifæri til slíks.

En því er eins farið um utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og um Norðurlandaráð og um norræna samvinnu yfirleitt, að þetta er allt orðið í meira lagi þreytulegt og innihaldslítið pappírsflóð, ófært um að mæta óvæntum og sögulegum viðburðum í heimspólitíkinni.

Léttvæg er röksemdin um, að ekki megi íþyngja Gorbatsjov í máli þessu. Helzti leiðtogi harðlínumanna í Kreml, Jegor Ligatsjev, hefur sagt berum orðum, að skriðdrekar komi ekki að gagni í Litháen, heldur verði að fara pólitískar leiðir til að komast að niðurstöðu.

Ef Ísland eitt eða Norðurlönd öll gera það, sem allir vita, að er siðferðilega rétt, og viðurkenna formlega sjálfstæði og fullveldi Litháens, gerist ekki annað en, að bæði mjúklínumenn og harðlínumenn í Kreml sannfærast betur um, að of erfitt sé að hamla gegn málinu.

Litháar hafa haldið mjög vel á sínum málum. Algert samkomulag er milli fullveldisflokksins, sem er í meirihluta á þinginu, og kommúnistaflokksins, sem varð undir í kosningunum, um að halda á málum eins og gert hefur verið. Þingið er einróma í afstöðu sinni.

Engar fjöldagöngur eða hátíðahöld voru í tilefni hinnar sögulegu niðurstöðu þingsins í Litháen. Forustumenn landsins gæta sín að búa ekki til skilyrði fyrir íhlutun Rauða hersins, svo sem varð í Azerbajdzhan, þar sem trúarofsi hljóp með sjálfstæðismenn á villigötur.

Smáríki eins og Ísland hefur lítil tækifæri til að láta gott af sér leiða í umheiminum og veraldarsögunni. Formleg viðurkenning Litháens er slíkt tækifæri.

Jónas Kristjánsson

DV