Víetnam í Afganistan

Greinar

Afganistan eru eins konar Víetnam Sovétríkjanna. Þau hafa þar orðið fyrir svipuðu heimsveldisáfalli og Bandaríkin urðu fyrir í Víetnamstríðinu. Rauði herinn hefur ekki ráðið við skæruliða og neyðist til að hverfa heim við lítinn orðstír og skert sjálfstraust ríkisins.

Afganistan var orðið að myllusteini um háls Sovétríkjanna. Ungu mennirnir komu vonsviknir og eiturlyfjasjúkir úr stríðinu. Paradís öreiganna sætti álitshnekki í ríkjum múhameðstrúar og þriðja heimsins. Lepparnir í Kabúl voru hvarvetna fyrirlitnir.

Að undirlagi Gorbatsjovs flokksleiðtoga hafa Sovétríkin lært af reynslunni í Afganistan. Þau fara sér mun varlegar en áður í valdatafli heimsveldanna. Brottför Rauða hersins frá Afganistan er mikilvægt skref í átt til þolanlegrar sambúðar heimsveldanna á næstu árum.

Á yfirborðinu er hrakför Sovétríkjanna í Afganistan minni en hrakför Bandaríkjanna í Víetnam á sínum tíma. Leppstjórnin fær enn um sinn að lafa í Kabúl og Bandaríkin hafa tekið á sig hluta af ábyrgð á svokallaðri hlutleysisstefnu Afganistans í framtíðinni.

Ekki er samt hægt að reikna með langlífi Nadsíbúlla lepps í Kabúl. Her hans var ótryggur, þegar hann hafði stuðning Rauða hersins, og hrynur væntanlega, þegar skjólið er farið. Eftir mun berjast glæpalýðurinn, sem hefur engu að tapa, þegar hefnd skæruliða nálgast.

Vesturlandabúar hafa þrátt fyrir allt þetta enga ástæðu til að líta með fögnuði til framtíðar Afganistans. Meðal skæruliða er hver höndin uppi á móti annarri. Öflugastir eru þeir, sem fyrirlíta Vesturlönd jafnmikið og Sovétríkin og vilja stofna múhameðskt klerkaríki.

Að undanförnu hafa skæruliðar skipzt í sjö fylkingar, sem gætu hæglega sundrazt í nokkra tugi á næstu árum. Fjórar af fylkingunum sjö eru múhameðskrar ofsatrúar, þótt þær gangi yfirleitt ekki eins langt og róttæku klerkarnir í nágrannaríkinu Íran.

Barátta skæruliða innbyrðis mun tefja fyrir, að tæplega sjö milljón flóttamenn geti snúið aftur til síns heima. Þeir, sem það geta, munu koma að hrundum húsum, brenndum ökrum og sprengdum áveitum. Vandamálin í Afganistan munu áfram vera hrikaleg.

Allir aðilar munu hafa fullar hendur vopna, þegar Rauði herinn fer. Sovétríkin og Bandaríkin grýta vopnum inn í landið til að bæta sem bezt stöðu sinna manna, áður en heimsveldasamningurinn um Afganistan tekur gildi á næstu mánuðum. Blóðbaðið mun lítið minnka.

Samkomulag heimsveldanna gerir ráð fyrir, að hernaðaraðstoð þeirra minnki í takt á þessu ári og leggist niður um áramót, þegar síðustu hermenn Sovétríkjanna eiga að yfirgefa landið. Vonandi leiðir þetta til hjöðnunar innanlandsátaka, þegar líður fram á næstu ár.

Skásta niðurstaðan í Afganistan væri sigur bandalags tiltölulega hægfara skæruliða, sem ekki færu að reyna að stjórna heiminum eins og klerkarnir í Persíu, héldu sæmilegan frið við björninn í norðri og sköpuðu aðstæður fyrir flóttamenn til að snúa heim til sín.

Miklu máli skiptir, að menn vænti ekki of mikils af brottför Rauða hersins. Engin rök mæla með, að Afganistan verði hluti hins frjálsa heims. Landið verður hluti múhameðska heimsins, vonandi ekki eins hvimleitt og Íran, en sennilega jafnerfitt og Líbanon eða Írak.

Fagnaðarefni er einkum fólgið í, að Sovétríkin hafa loksins lært sömu lexíu og Bandaríkin voru áður búin að læra, ­ að jafnvel heimsveldi eru takmörk sett.

Jónas Kristjánsson

DV