Íslendingar heilsuðu í morgun nýjum þjóðhöfðingja, sem þeir kusu í gær, Vigdísi Finnbogadóttur. Þeir munu fylkja sér um hana sem einn maður, þegar hún tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst.
Kjör Vigdísar markar ekki aðeins tímamót í íslenzkum þjóðmálum, heldur er einnig dálítið innlegg í sjálfa veraldarsöguna. Það er ákaflega sjaldgæft, að konur séu kosnar til þjóðhöfðingja.
Kosningabarátta Vigdísar vakti mikla athygli erlendis.Við megum nú búast við, að kjör hennar veki enn meiri athygli. Nafni Íslands verður haldið á lofti í erlendum fjölmiðlum á næstunni.
Vigdís Finnbogadóttir er vel að embættinu komin. Hún er fjölmenntuð kona, sem í senn er heima í menningararfleifð Íslands og í erlendum menningarstraumum. Hún mun sóma sér vel á Bessastöðum.
Hinum forsetaefnunum þremur er enginn persónulegur ósigur að því að hafa ekki náð kjöri. Allir hafa þeir vaxið af kosningabaráttu sinni. Þjóðin metur þá alla meira en áður.
Guðlaugur Þorvaldsson var aðeins hársbreidd frá sigri. Hans bíða nú gífurlega erfið verkefni við að sætta aðila vinnumarkaðarins. Þar mun hann njóta þeirrar reisnar, sem hann hefur unnið sér í kosningabaráttunni.
Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson munu líka hverfa aftur til fyrri starfa. Álit það, sem þeir hafa unnið sér að undanförnu, mun verða þeim og þjóð til góðs, öðrum í stjórnmálum og hinum í utanríkisþjónustu.
Allir fjórir frambjóðendurnir voru hæfir til að gegna embætti forseta. Þjóðin átti ekki annars úrkosti en að taka einn þeirra fram yfir hina. Það hefur hún nú gert. Vigdís varð fyrir valinu.
Hin forsetaefnin og stuðningsmenn þeirra munu taka þessum úrslitum á einn veg. Öll þjóðin mun sýna Vigdísi Finnbogadóttur hollustu og standa saman um sinn nýja þjóðhöfðingja.
Undanfarnar vikur hafa verið tími eðlilegs, lýðræðislegs klofnings, kosningabaráttu. Nú er þeirri baráttu lokið á venjulegan lýðræðishátt og þjóðin er aftur sameinuð sem ein heild.
Nóttin var óneitanlega sérstaklega spennandi. Oft munaði mjóu og um skeið innan við hundrað atkvæðum. Þúsundir manna munu minnast með ánægju þessarar andvökunætur.
Dagblaðsmenn hafa sérstaka ástæðu til að minnast endanlegs sigurs aðferðar þeirra í skoðanakönnunum, gegn úrtölum lektora úr félagsfræðideild, sem hafa árangurslaust talið sig vita betur.
Hinn kunni Gallup sagði nýlega, að menn ættu að reikna með 2-3 prósentustiga frávikum í skoðanakönnunum. Á því bili hafa skoðanakannanir Dagblaðsins einmitt verið. En í þetta sinn komust frávikin niður í 0,6 prósentustig.
Þannig munu margir eiga sínar minningar um sigra og ósigra næturinnar. Óhjákvæmilegt er, að sumir verði beizkir fyrst í stað, ekki sízt þeir, sem þrotlaust hafa unnið fyrir sitt forsetaefni. En þeir munu fljótt jafna sig.
Að lokum er við hæfi að gefa hinum nýkjörna forseta orðið. Vigdís Finnbogadóttir sagði í morgun í viðtali við Dagblaðið: “Þetta á að vera hamingja okkar allra, nú er sumarið byrjað.”
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið