Víglína íslenzkrar byggðastefnu stendur ekki lengur á Hornströndum. Þær eru þegar komnar í eyði, minnisvarði gífurlegra fólksflutninga átta áratugi þessarar aldar. Hornstrandir munu ekki byggjast á nýjan leik í fyrirsjáanlegri framtíð.
Sjálfstæði íslenzks þjóðfélags beið ekki verulegan hnekki af ósigri byggðar á Hornströndum. Þaðan og úr öðru dreifbýli var efnt í mikla fólksfjölgun í þéttbýli um land allt. Ósigur á einum stað varð að stærri sigri á öðrum.
Sem náttúra hafa Hornstrandir hagnazt á eyðingu byggðar. Í kjölfar snarminnkaðrar sauðbeitar og annars ágangs hefur gróður aukizt verulega. Hornstrandir eru eitt af fáum svæðum utan ræktunarlanda, þar sem gróður er ekki á undanhaldi.
Víglína íslenzkrar byggðastefnu hefur ekki flutzt til Melrakkasléttu. Sjálfstæði þjóðarinnar mun standa og falla með öðrum og alvarlegri atburðum en brottflutningi manna af Sléttu, minnkandi sauðbeit og endurreisn gróðurs.
Víglína íslenzkrar byggðastefnu hefur meira að segja ekki flutzt til blómlegra sveita Eyjafjarðar. Hvort tveggja getur tekizt í senn, að byggð haldist í slíkum sveitum, en samt takist ekki að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi.
Víglína íslenzkrar byggðastefnu er satt að segja á Reykjavíkursvæðinu, glugga landsins gagnvart umheiminum. Þar í gegn hafa farið flestir þeir, sem flúið hafa land síðasta áratug. Þeir eru 5.500 umfram aðflutta, fleiri en allir sjómenn landsins.
Sjálfstæði þjóðfélagsins þolir ef til vill í tvo eða þrjá áratugi enn, að flótti umfram aðflutning nemi 550 manns á ári. Jafnvel þótt í þessum hópi sé óþægilega mikið af fólki, menntuðu í hagnýtum fræðum, sem víða er hægt að nýta.
Því miður er að koma skrið á flóttann til útlanda. Tala flúinna umfram aðflutta getur þegar á þessu ári farið yfir 1000. Hún getur hæglega og fyrirvaralítið hlaupið upp í 2000 manns á ári eða meira. Við höfum t.d. aðgang að frjálsum, norrænum vinnumarkaði.
Meðal þeirra, sem flytja, eru þeir, sem hafa þekkingu eða kunnáttu eða leikni, sem metin er til meiri tekna í útlöndum en hér. Jafnvel háskólamenntaðir sjávarútvegsfræðingar fá ekki vinnu hér, en velja ár girnilegum, erlendum tilboðum.
Á sama tíma magnast óveðursský lífskjaramunarins. Fyrir fimmtán árum voru lífskjör okkar svipuð og nágrannanna. Nú hefur hins vegar myndazt gjá, sem breikkar stöðugt. Og margir neita að þræla á Íslandi fyrir þeim lífskjörum, sem þeir stefna að.
Með vaxandi nýlendum Íslendinga í nálægum löndum verður auðveldara fyrir fólk að flytjast úr landi og verða þátttakendur í fyrirhafnarminni velsæld. Til dæmis hjá Norðmönnum, sem senn munu ekki vita olíuaura sinna tal.
Á þessum áratug gengissigs þjóðfélagsins hafa fimm eymdarstjórnir hver fram af annarri óviljandi keppzt við að magna fólksflóttann og grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar. Þær hafa m.a. gert það með því að heyja byggðastríðið á röngum stað.
Þær hafa tafið iðnbyltingu með því að taka fjármagnið og sökkva því í snarvitlausan landbúnað. Þær hafa látið kaupa milljarðaskip, sem fá að vera á veiðum þriðjung ársins. Þær hafa slævt framtak þjóðarinnar með gegndarlausri samneyzlu og seðlaprentun.
Eina leiðin til að stöðva hrunið er, að stjórnmálamenn neiti sér um að kaupa atkvæði á Melrakkasléttum landsins. Fyrsta skrefið til slíkrar sjálfsafneitunar er að átta sig á, að byggðavarnarstríðið hefur verið háð í rangri og vonlausri víglínu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið