Víkkað verksvið bandalags

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur lagt til, að verksvið Atlantshafsbandalagsins verði víkkað og látið ná til varna gegn hættum, er hafa tekið við af kalda stríðinu sem helzta ógnunin við öryggi vestrænna ríkja. Ber þar hæst neðanjarðarstarfsemi og hryðjuverk af ýmsu tagi.

Vestur-Evrópuríkin hafa yfirleitt staðbundnari áhugamál og hafa verið treg til að flækja sig í víðtækari mál. Þau hafa hins vegar ekki getað bent á, hver skuli vera tilgangur Atlantshafsbandalagsins, þegar óvinurinn sjálfur er horfinn af sjónarsviðinu fyrir áratug.

Raunar hefur komið í ljós, að allt frumkvæði í Atlantshafsbandalaginu kemur frá Bandaríkjunum. Evrópuríkin voru með japl og jaml og fuður í málefnum Bosníu fyrst og síðar Kosovo. Það voru Bandaríkin, sem loksins tóku af skarið og fengu hina í lið með sér.

Samt eru Bosnía og Kosovo á jaðri Vestur-Evrópu, en ekki Bandaríkjanna. Meðal sparnaðarsinna í bandarískum stjórnmálum hefur heyrzt, að endurskoða þurfi þátt Bandaríkjanna í kostnaði við hernaðarbandalag með daufgerðum ríkjum, sem tími varla að verjast.

Grundvallarspurningin er, hvort ástæða sé til að halda með miklum tilkostnaði uppi hernaðarbandalagi, þegar kalda stríðið er búið. Bandaríkjastjórn hefur flutt tillögu að svari við þessari spurningu, en evrópska áhugaleysið mundi að lokum leiða til andláts bandalagsins.

Mörg ríki eru nú að vinna að smíði kjarnavopna, efnavopna og veiruvopna. Pakistan og Indland hafa nýlega sprengt í tilraunaskyni. Samkvæmt síðustu fréttum safnar Persía til sín atvinnulausum vísindamönnum frá Rússlandi á sviðum efna- og veiruvopna.

Bandarískir hernaðarfræðingar hafa fjallað um hættuna af útbreiðslu slíkra vopna. Bent hefur verið á, að hryðjuverkamenn geti flutt þau á laun til einhvers vestræns ríkis og hótað að beita þeim, ef ekki verði fullnægt einhverjum pólitískum skilyrðum.

Á hinn bóginn má líka benda á, að mestur hluti þessarar hættu stafar frá íslömskum ríkjum og hópum, sem hafa óbeit á Bandaríkjunum vegna eindregins stuðnings þeirra við erkióvin íslams, Ísrael, sem meðal annars þverbrýtur alþjóðareglur um hernám landsvæða.

Miklu einfaldara væri og öruggara fyrir vestrænar þjóðir, ef Bandaríkin hættu stuðningi við ofbeldishneigt ofsatrúarríki gyðinga og Vesturlönd tækju upp gott samstarf við ríki íslams heldur en að setja upp flókið varnarkerfi gegn íslömskum hryðjuverkamönnum.

Áhyggjur í Vestur-Evrópu út af hugmyndum Bandaríkjastjórnar um víkkað athafnasvið Atlantshafsbandalagsins stafa meðal annars af því, að menn vilja ekki taka þátt í sérhæfðum áhugamálum Bandaríkjanna, sem stangast beinlínis á við vestræna hagsmuni.

Víkkun Atlantshafsbandalagsins til nýrra sviða er skynsamleg, ef hún felur um leið í sér fráhvarf Bandaríkjanna frá eindregnum stuðningi við Ísrael, svo að unnt verði að byggja upp einlægan og varanlegan frið milli hinna vestrænu og íslömsku menningarheima.

Öryggismál Vesturlanda eru orðin meira pólitísk en hernaðarleg. Hjálpa þarf orþódoxu austri til að komast í félag með kaþólsku vestri eftir hrun Sovétblokkarinnar. Varðveita þarf hinn góða frið við japanska menningarheiminn og taka meira mark á risavöxnu Indlandi.

Í heimi misjafnra menningarblokka er samt líka þörf fyrir útvíkkað Atlantshafsbandalag, er hefur skilgreind og afmörkuð markmið, sem aðildarríkin samþykkja.

Jónas Kristjánsson

DV