Vilja fé til flugstöðvar.

Greinar

Almenningsálitið á Íslandi er fylgjandi þeirri helmingsþátttöku Bandaríkjanna í kostnaði við gerð nýrrar flugstöðvar í Keflavik, sem samið hefur verið um. Þetta kom fram í nýlegri skoðanakönnun Dagblaðsins.

Fólk hefur almennt gert upp hug sinn til málsins. Aðeins 5% hinna spurðu sögðust vera óákveðnir og aðeins 10% vildu ekki svara. Þetta eru mjög lágar hlutfallstölur, gerólíkar þeim, sem við höfum séð í óljósri afstöðu fólks til flokkanna.

64% stuðningur og 21% andstaða við kostnaðarþáttökuna sýna líka skörp skil. Sá fimmtungur þjóðarinnar, sem er andvígur þáttökunni, er að verulegu leyti sami hópurinn og stuðningsfólk Alþýðubandalagsins.

Í skoðanakönnunum hefur árum saman komið í ljós, að fimmtungur eða fjórðungur þjóðarinnar er andvígur dvöl bandaríska hersins og þáttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Sami, fasti minnihlutinn kemur einnig fram í þessari könnun.

Viljayfirlýsing almennings er skýr. 76% þeirra, sem lýsa skoðun, eru fylgjandi kostnaðarþátttöku Bandaríkjanna og 24% eru henni andvígir. Samkomulagið styðja flestir óháðir kjósendur og kjósendur annarra flokka en Alþýðubandalagsins.

Niðurstaðan sýnir í hnotskurn, að það eru mál, sem varða Keflavíkurflugvöll, er greina milli kjósenda Alþýðubandalagsins annars vegar og hins vegar kjósenda þeirra flokka, sem stundum eru kallaðir lýðræðisflokkar eða þá hernámsflokkar.

Niðurstaðan sýnir líka, að neitunarvald Alþýðubandalagsins í ríkisstjórninni gegn viðtöku peninga frá Bandaríkjunum stríðir gegn almenningsálitinu í landinu og skoðunum stuðningsmanna hinna tveggja afla ríkisstjórnarinnar.

Spurt var um helmingsþátttöku, af því að það er niðurstaða samkomulags milli Bandaríkjanna og Íslands. Í svörum fjölmargra kom þó fram, að þeir vildu gjarna, að kostnaðarhlutdeild Bandaríkjanna væri enn meiri.

Einnig vísuðu menn til svonefndrar aronsku, sem felst í stuðningi við auknar greiðslur af hálfu Bandaríkjanna, einkum á sviðum, sem telja mætti til almannavarna, svo sem varanlega vegagerð og smíði neðanjarðarbyrgja.

Skoðanakönnunin sýnir, að aronskan er við góða heilsu, þrátt fyrir lítið umtal á allra síðustu árum. Væntanlega verður það tilefni þess, að Dagblaðið kanni fylgi aronskunnar sérstaklega við fyrstu hentugleika.

Fyrir nokkrum árum mátti í grófum dráttum segja, að 70% þjóðarinnar styddi aronsku og að rúmlega helmingur afgangsins væri andvígur dvöl bandaríska herliðsins og þáttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Skoðanakönnunin bendir einnig til, að svonefnd friðarhreyfing í Evrópu, sem sumir vilja kalla uppgjafarhreyfingu, nýtur ekki mikils fylgis hér á landi og ekki meira fylgis en verið hefur um langan aldur. Hún hefur verið sérvizka og er enn.

Almenningur telur, að kostnaðarþáttaka Bandaríkjanna í flugstöðinni sé eðlileg afleiðing aðgreiningar borgaralegs og hernaðarlegs flugs, af hönnun stöðvarinnar sem loftvarnabyrgis og af yfirtöku hersins á gömlu flugstöðinni.

Þetta almenningsálit nær hins vegar ekki fram að ganga að sinni, af því að Alþýðubandalagið hefur komið þeirri ár sinni fyrir borð í ríkisstjórninni, að það hafi neitunarvald gegn umtalsverðum breytingum þar syðra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið