Vilja heyra vaxtaævintýri

Greinar

Íslendingar eru á móti vöxtum án þess að hugsa nánar út í það. Það er helzt aldrað fólk, sem hefur sparað, er lítur jákvæðum augum á vexti, svo og umsjónarmenn lífeyrissjóða og annarra fjármagnsstofnana, en þeir eru svo fáir sem kjósendur, að þeir teljast varla.

Hinir eru miklu fleiri, sem þurfa að greiða niður skuldir sínar eða muna eftir erfiðleikum sínum við það. Ennfremur eru fyrirtæki svo lítil hér á landi, að starfsmenn þeirra vita oft tiltölulega vel um, að vaxtabyrði getur verið umtalsverður þáttur í rekstri þeirra.

Fátítt er á Vesturlöndum, að efnahagsumræða geti snúizt um, hvaða vextir sü sanngjarnir. Erlendis er litið á vexti sem gangráð, en ekki sem þátt velferðarkerfisins. Þar eru vextir hækkaðir til að hamla gegn verðbólgu og lækkaðir, þegar verðbólga minnkar.

Hér er umræðan á mun lægra stigi. Lengst í því gengur forsætisráðherra, sem hélt því fram um daginn, að bankagróðinn sýndi, að vextir væru of háir. Hið rétta er, að bankagróði sýnir frekar, að munur inn- og útvaxta sé of mikill eða að þjónustugjöld sü of há.

Þegar forsætisráðherra getur, án þess að blikna eða blána, kennt óskyldu atriði um bankagróða, er engin furða, þótt hann haldi líka fram, að háir vextir auki verðbólgu. Enginn hagfræðingur í heiminum heldur slíku fram, nema ef verið hefði Magni Guðmundsson.

Svo sérstæð er þessi skoðun, að samráðherra forsætisráðherrans, það er bankaráðherrann, sagði um daginn á Alþingi, að hún væri röng. Hann sagði það ekki berum orðum, en orðaði það á þá leið, að skoðun Seðlabankans væri rétt, það er að segja gagnstæð skoðun.

Svo sérstæð er vaxtaskoðun forsætisráðherra, að Þjóðhagsstofnun er sammála Seðlabankanum um, að hún sé röng. Þetta kom fram í svari stofnunarinnar hér í blaðinu á föstudaginn. Hefur stofnunin þó yfirleitt reynt að styðja yfirboðara sinn, forsætisráðherrann.

Steingrími Hermannssyni er nákvæmlega sama um, hvað hagfræðingar Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar eru að segja. Honum er enn frekar sama um, hvað hagfræðingar í Háskólanum og ýmsum stofnunum úti í bæ eru að segja. Hann veit, að fólk vill heyra ævintýri.

Gengi stjórnmálamanna á borð við forsætisráðherra byggist á sama veikleika fólks og gengi stjórnmálaflokka á borð við Framsóknarflokkinn. Þetta gengi hvílir á traustum grunni vanþekkingar og óskhyggju meðal kjósenda almennt. Vextir eru einfaldlega óvinsælir.

Gengi slíkra stjórnmálamenna og stjórnmálaflokka fer líka eftir hinni séríslenzku hugmynd, að verkefni stjórnmálamanna sé fólgið í að stýra öllu að ofan, smáu sem stóru. Það vantar ekki mikið á, að menn ætlist til, að þjóðarleiðtogar stjórni veðri og vindum.

Markaðslögmál eru fjarlæg Íslendingum. Sjálfvirkir gangráðar eru langt utan hugmyndaheims okkar. Íslendingar ætlast fremur til, að traustir menn komi saman á fund í nefnd og stjórn og ákveði með pennastriki, hvernig hlutirnir skuli ganga, að beztu manna yfirsýn.

Íslendingar taka engum rökum, hvorki vitsmunalegum né peningalegum. Ef þeim finnst blóðugt að borga vexti, vilja þeir einfaldlega, að forsætisráðherra lækki vextina og afnemi þá helzt með öllu. Þetta veit ráðherrann og talar því algerlega út úr hól um hagfræði.

Forsætisráðherra er annar vinsælasti stjórnmálamaður landsins og jafnframt nákvæmlega sú tegund stjórnmálamanna, sem utangátta rökleysuþjóð á skilið.

Jónas Kristjánsson

DV