Vilja láta verkin tala

Greinar

Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur ákveðið að bjóða út tryggingar 10.000 bíla á alþjóðlegum vettvangi til þess að ná iðgjöldum þeirra bíla niður um að minnsta kosti 15-20%. Þetta er djörf tilraun félagsins til að hamla gegn illa þokkaðri fáokun innlendu tryggingafélaganna.

Fyrsta skref félagsins fólst í tveggja kvölda símakönnun, sem leiddi í ljós, að rúmlega þriðji hver bíleigandi sagðist vera reiðubúinn að vera með í pakkanum. Af því að hér segja menn oft meira en þeir gera, hefur félagið áætlað, að tíundi hver bíleigandi verði í rauninni með.

Nú ætlar félagið að safna yfirlýsingum 10.000 bíleigenda um, að þeir séu tilbúnir að skipta um tryggingafélag, ef hagkvæmara tilboð bjóðist frá öðrum aðila. Með það í höndunum ætlar félagið síðan að bjóða allan pakkann í heilu lagi á alþjóðlegum tryggingamarkaði.

Félagið hefur þegar tekið upp þráðinn við erlend fyrirtæki til að kanna jarðveginn. Ráðamenn félagsins telja, að svona margir bílar séu freistandi, því að þeir geri nýju tryggingafélagi kleift að hazla sér völl hér á landi og leggja í þann kostnað, sem fylgir allri byrjun.

Það er ekki auðvelt verkefni, sem Félag íslenzkra bifreiðaeigenda hefur tekizt á hendur með þessu framtaki. Ýmis ljón eru á veginum, sem taka verður tillit til. Ef dæmið gengur upp, munu ráðamenn félagsins hafa mikinn sóma af, en enginn verður óbarinn biskup.

Erfiðasti hjallinn kemur fyrst í ljós. Hann felst í landlægu þýlyndi Íslendinga, sem láta yfir sig ganga hremmingar, sem mundu kalla á hörð viðbrögð borgara í ýmsum öðrum löndum, svo sem í Bandaríkjunum. Íslendingar eru fúsir til mótmæla, en vilja ekki hafa fyrir þeim.

Fræg dæmi eru raunar til úr sögu Félags íslenzkra bifreiðaeigenda. Þá kom í ljós, að íslenzkir bíleigendur voru fúsir til að þeyta bílhorn í eina mínútu til að mótmæla benzínhækkun, en voru svo ófáanlegir til að taka strætisvagn í einn dag til sams konar mótmæla.

Þótt þriðji hver bíleigandi segist vilja taka þátt, er ekki víst að tíundi hver bíleigandi muni í rauninni skrifa undir. Það er því við ramman reip að draga, þar sem er ístöðuleysi og úthaldsleysi og einkum þó þýlyndi og vanþroski Íslendinga, þegar til kastanna kemur í alvöru.

Ef félagið kemst yfir þennan hjalla, verður eftirleikurinn ekki eins erfiður. Ljóst er, að innlendu ofbeldisfélögin hafa að undanförnu verið að safna digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Áætlað er, að vextirnir einir af sjóðunum nemi 10.000 krónum á ári á hvern bíleiganda í landinu.

Þess vegna er líklegt, að einhver erlend tryggingafélög sjái sér hag í að bjóða í stóran pakka og nota magnið til að auðvelda sér að koma upp útibúi á Íslandi. Sjóðir tryggingafélaganna sýna, að iðgjöld bílatrygginga eru of há hér á landi og að unnt er að bjóða lægri iðgjöld.

Ef bíleigendum tekst þetta mikilvæga verkefni, er kominn grundvöllur fyrir því, að almennir borgarar átti sig á mikilvægi samtakamáttar gegn þeim aðilum, sem í skjóli þröngs og lengst af fremur lokaðs markaðar hafa rottað sig saman í fáokun á kostnað almennings.

Hingað til hafa markaðslögmál aðeins gilt til málamynda á mörgum sviðum hér á landi. Á flestum mikilvægum sviðum starfa fá og stór fyrirtæki, sem hafa með sér náið samráð um meðferð viðskiptamanna, og á sumum sviðum er raunar einokun ríkisfyrirtækis.

Fyrir utan afnám ríkisafskipta af landbúnaði er fátt, sem er betur til þess fallið að bæta lífskjör almennings en virk og öflug samtök hans gegn einokun og fáokun.

Jónas Kristjánsson

DV