Vilji fólksins er til reiðu.

Greinar

Ríkisstjórninni hefur tekizt furðanlega vel að ná þjóðarsamstöðu um efnahagsráðstafanir áramótanna, jafn götóttar og þær eru. Hlynntir aðgerðunum voru tveir af hverjum þremur, sem afstöðu tóku í nýjustu skoðanakönnun Dagblaðsins.

Þar á ofan gerir fólk sér grein fyrir takmörkunum aðgerðanna, þegar það segist styðja þær. Fólk telur þær ná of skammt, en vera samt spor í rétta átt. Þetta þema kom hvað eftir annað fram í svörum þeirra, sem spurðir voru.

“Fylgjandi þeim, svo langt sem þær ná”. “Ráðstafanirnar hefðu mátt vera róttækari. Ég er reiðubúinn að axla þyngri byrðar”. “Ef þeir slysast til að gera eitthvað meira í vor, þá hljóta efnahagsaðgerðirnar að vera til bóta”.

“Spor í rétta átt” og “betri en engar” voru algengustu ummælin. Þessi efahyggja stuðningsfólks aðgerðanna bendir til, að kjósendur séu fremur raunsæir og lítillátir um þessar mundir og hafi ekki áhuga á leiftursóknum.

Andstæðingar ríkisstjórnarinnar geta með nokkrum rétti haldið því fram, að hún hafi fyrst komið verðbólgunni úr 50% í 80% og hrósi sér nú af að hafa komið henni aftur niður í 50%. En fólkið í landinu virðist ekki taka undir þetta.

Því miður komu ekki heldur fram í könnuninni neinar umtalsverðar áhyggjur af haftakerfi millifærslna, sem boðað er, að kunni að fylgja gengisfölsunum, þegar líður á árið. Fólk man ekki aldarfjórðung aftur í tímann.

Af slíkum ástæðum geta framfarasinnar ekki verið eins ánægðir með niðurstöðu könnunarinnar og ríkisstjórnin virðist vera. Þjóðin má ekki veita ríkisstjórninni hljómgrunn til ráðstafana, sem beinlínis skaða þjóðarhag.

Svo virðist sem persónutöfrar Gunnars Thoroddsen séu slíkir, að fólk fylgi honum gegnum þykkt og þunnt. Það vilji ekki hlusta á keppinauta hans í Sjálfstæðisflokknum, af því að þeir hafa slysast til að vera svo hrútleiðinlegir.

Slíkt jafnvægisleysi í trausti á mönnum getur verið hættulegt til lengdar. Það þýðir þó ekki, að öll nótt sé úti. Í skoðanakönnuninni kom greinilega í ljós, að fólk býst við og ætlast til, að varanlegar umbætur fylgi í kjölfarið.

Ummæli fólks bentu eindregið til, að kjósendur væru flestir á þeirri línu Framsóknarflokksins, að bráðabirgðalögin ættu bara að vera fyrsta skrefið, og andvígir þeirri skoðun, sem gætt hefur hjá Alþýðubandalaginu, að nóg hafi verið gert.

Þetta bendir til, að fólk muni ekki þola til lengdar, að ríkisstjórnin setjist í helgan stein og hvíli sig á lárviðarsveigum bráðabirgðalaganna. Einhvern tíma á þessu ári brestur það þolinmæðina, ef værðin tekur nú við.

Ríkisstjórnin má ekki gleyma sér í sigurvímu úrslita skoðanakönnunarinnar. Hún þarf að minnast, hversu fallvalt fylgi kjósenda er orðið á síðustu árum. Hún þarf að lesa milli línanna í efasemdum sinna eigin stuðningsmanna.

Fólkið segir, að spor hafi verið stigið í rétta átt, en það nái of skammt. Það segist ekki geta verið andvígt aðgerðunum á þessu stigi málsins. Það segir “gott og vel”, en bíður og sér. Meðbyrinn þarf ekki að vara að eilífu.

“Vilji er allt, sem þarf”, sagði forsætisráðherra um áramótin. Viljinn er til reiðu hjá kjósendum, svo sem könnun Dagblaðsins sýnir. Og þá er bara eftir að vita, hvort ríkisstjórnin sem heild hefur “allt, sem þarf”.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið