Vill gleðjast yfir guðs mildi

Punktar

“MEÐ SKAÐLEGUSTU náttúruhamförum sögunnar”, segir Mogginn á forsíðu í gær. “Einn versti fellibylur í sögu Bandaríkjanna” segir Fréttablaðið sama dag. “Alger upplausn ríkir í New Orleans” segir DV við sama tækifæri. Allir segja sömu sögu.

NEMA BLAÐIÐ. Þar gerir Andrés Magnússon grín að fréttum ljósvakamiðla og segir þeim nær “að gleðjast yfir guðs mildi en að harma hana vegna þess að fréttatíminn varð minna spennandi”. Andrés kvartar líka yfir, að ljósvakamiðlarnir hafi reynt að gera sér mat úr hörmungum í New Orleans.

FLEST VIRÐIST VERA að koma fram af því versta, sem spáð var í fjölmiðlum um afleiðingar fellibylsins Katrínar. Eignatjón er meira en spáð var, mannfall meira, gangsetning innviða verður langdregnari, hækkun olíuverðs meiri. Í engu er sjáanlegt, að uslinn verði minni en spáð var í fjölmiðlum.

ANDRÉS ER EKKI BARA setinn af áhyggjum af ýkjum fjölmiðla um hamfarirnar við Mexikóflóa. Hann óttast líka, að málið verði notað til útmála, hvernig Katrín tengist gróðurhúsaáhrifum. Þar ratast honum satt á munn, því að flestir telja augljóst, að forsendur Katrínar stafi beinlínis af mannavöldum.

VIÐ HÖFUM SÉÐ og lesið bandaríska og íslenzka fræðimenn útskýra, hvernig aukin losun koltvísýrings hefur hitað yfirborð sjávar á þessum slóðum og framkallað ofsafenginn fellibyl. Við megum líka búast við fleiri náttúruhamförum, meðan trúbræður Björns Lomborg ráða ríkjum í heiminum.

GOTT ER, AÐ FRÉTTAMAT skuli vera misjafnt hér á landi og að notendur fjölmiðla eigi aðgang að gerólíku mati fjölmiðla á mikilvægum atburðum í nútímasögunni. “Almennt og yfirleitt er allt gott í fréttum”, segir Andrés að lokum.

DV