Villimenn átu lakkrísgerðina

Greinar

Bitur reynsla íslenzkra kaupsýslumanna, sem komu á fót lakkrísverksmiðju í Kína, sýnir vel, hversu vitlaust er að fórna fé og fyrirhöfn í viðskipti við aðila, sem skipta um tromp í miðju spili. Viðskipti án vestrænna leikreglna eru ávísun á fjárhagstjón og tímasóun.

Íslendingarnir voru engir græningjar í viðskiptum. Þeir komu úr ýmsum þáttum athafnalífsins, einkum verzlun og sjávarútvegi. Þeir lögðu fram séríslenzka þekkingu á lakkrísgerð og lakkrísmarkaði og rúmlega hundrað milljónir króna í hlutafé og rekstrarfé.

Á móti lögðu kínverskir aðilar fram rústir af verksmiðjuhúsi. Það var gert upp sem nýtt og keyptar vélar fyrir íslenzka hlutaféð. Þegar auka þurfti hlutafé í fyrirtækinu, lögðu kínversku aðilarnir aldrei fram krónu en héldu samt eignarhluta sínum óbreyttum.

Hvenær sem vandamál komu upp, voru búnar til nýjar leikreglur á staðnum, íslenzku aðilunum í óhag. Þegar fyrirtækið strandaði eftir eitt ár, urðu Íslendingarnir að hypja sig heim með skottið milli fótanna, en kínversku aðilarnir héldu nýuppgerðri verksmiðju.

Íslenzka utanríkisráðuneytið hefur ekkert gert til aðstoðar við að fá skaðabætur vegna eignarnámsins, sem fólst í geðþóttaákvörðunum í Kína. Ráðuneytismenn eru með það á heilanum, að ekki megi styggja kínverska ráðamenn út af viðskiptahagsmunum.

Þessir hagsmunir eru nánast engir, enda er viðskiptajöfnuðurinn okkur afar óhagstæður. Við flytjum út til Kína fyrir um það bil hálfan milljarð króna á ári, sem er afar lítið, til dæmis miðað við Taívana, sem kaupa af okkur fyrir tvo milljarða króna á ári.

Reynsla Íslendinga af viðskiptum við Kína er ekki óhagstæðari en margra erlendra aðila. Munurinn er fyrst og fremst sá, að íslenzka utanríkisráðuneytið gerir ekkert til að fá Kínverja til að virða leikreglur, heldur sendir embættismenn til að slefa fyrir þeim.

Mörg fjölþjóðleg stórfyrirtæki þreyja þorrann til að vera komin með fótinn inn fyrir dyrnar, þegar farið verði að virða spilareglur viðskiptanna í Kína. Þessi fyrirtæki hafa bolmagn til að tapa peningum árum saman, en það hafa Íslendingar engan veginn.

Við höfum hvorki bolmagn né stuðning ráðuneytis til að starfa með Kínverjum. Þeir hafa engar afurðir að bjóða, sem við getum ekki fengið annars staðar. Við ráðum aldrei við að framleiða fyrir nema brot af þeim hluta heimsins, sem virðir lög og rétt í viðskiptum.

Reynslan sýnir, að nýlega opnað sendiráð Íslands í Kína er ekki bara gagnslaust, heldur beinlínis skaðlegt. Það stuðlar raunar að því, að fleiri íslenzkir aðilar tapi fé og tíma á kínverskum markaði. Kostnaði við sendiráðið væri betur varið í sendiráð í Tokyo.

Japan er glæsimarkaður fyrir íslenzkar afurðir. Þar eru keyptar dýrum dómi ýmsar vörur, sem áður höfðu ekki markað. Þar er farið eftir leikreglum, en ekki skipt um tromp í miðju spili. Við eigum auðvitað að efla slík viðskipti með því að koma á fót sendiráði þar.

Sannleikurinn um Kínaviðskiptin nær því miður ekki eyrum þeirra, sem stjórna utanríkismálum okkar. Þvert ofan í staðreyndir er sífellt verið að tauta gamlar klisjur um mikla möguleika í Kína. Þessi meinloka er inngróin í heilabúið og læknast ekki með upplýsingum.

Einn eigenda íslenzku lakkrísverksmiðjunnar í Kína komst að kjarna málsins, þegar hann lýsti viðskiptunum með því að segja: “Þetta eru villimenn”.

Jónas Kristjánsson

DV