Vinir Hafnarfjarðar

Greinar

Ef verktaki er hæfari eða reyndari en aðrir á einhverju sviði, kemur það fram í, að hann getur boðið lægri upphæð í verkið. Það er einmitt eðli útboða að leiða slíkan mismun í ljós, til hagsbóta fyrir báða aðila. Þetta á að geta gilt í Hafnarfirði eins og annars staðar.

Bæjarstjórinn í Hafnarfirði og aðrir verkkaupar þurfa ekki að taka á sínar herðar ábyrgðina af að úrskurða, að einhver einn aðili sé hæfastur allra til að vinna verkið. Reynslan sýnir, að útboð eru miklu árangursríkari leið til að ná hagkvæmum viðskiptum við verktaka.

Ef verktaki er svo hæfur og reyndur, að hann getur hannað verkið betur en aðrir, kemur það fram, þegar notað er alútboð. Þau eru farin að tíðkast hér á landi að erlendum hætti. Þá er boðin út hönnun og framkvæmd verks í einu lagi, til mikilla hagsbóta fyrir báða.

Það er ekki bara bæjarstjórinn og bæjarstjórnin í Hafnarfirði, sem hafa misstigið sig á sviði verkkaupa. Svipað hefur gerzt í Reykjavík, þar sem verktökum hafa verið afhent framhaldsverk án útboðs, á þeirri lélegu forsendu, að þeir séu raunar þegar byrjaðir á verkinu.

Slík vinnubrögð sýna, að illa hefur verið staðið að upphaflegu útboði. Annaðhvort þarf útboðið að ná til alls verksins eða til svo afmarkaðra hluta þess, að hægt sé að framkalla samkeppni milli tilboða í síðari hlutum þess. Þetta hefur greinilega ekki tekizt í Reykjavík.

Hvorki í Hafnarfirði né í Reykjavík er það frambærileg afsökun, að málin séu nú í þeirri stöðu, að ekki sé hægt að ná þeim árangri með útboði, sem venjulega er ætlazt til. Bæjarstjórnirnar ættu þá um leið að biðjast afsökunar á að hafa farið rangt í málið í upphafi.

Ekki er heldur hægt að drepa málinu á dreif með því að upplýsa, að bæjarstjórnarmaður í Hafnarfirði hafi stutt verkgjöfina allt til þess tíma, er hann stóð andspænis prófkjöri í flokki sínum. Batnandi manni er bezt að lifa, en afsökunarbeiðni hans hefði raunar mátt fylgja.

Prófkjör eru raunar sumpart grein af sama meiði og útboðin. Þau eru aðferð til að ná betri árangri. Ef tilhugsun um prófkjör vekur stjórnmálamann í Hafnarfirði af doðanum og fær hann til að breyta röngum vinnubrögðum sínum í rétt, fela prófkjör í sér bætt stjórnmál.

Verktakamálið í Hafnarfirði er merkilegt fyrir allar þær sakir, sem hér hafa verið raktar, en merkast er það þó fyrir að hafa opnað augu margra fyrir þeim vítahring, sem felst í byggingu virkismúra um bæ, land eða álfu. Slíkir múrar kalla á andsvör. Og allir tapa.

Ef Hafnarfjarðarmálið öðlast fordæmisgildi, endar það með, að hver fyrir sig reisir múr umhverfis sig og sína vini. Þannig munu vinir Hafnarfjarðar fá verkefni í Hafnarfirði og hvergi annars staðar. Þetta er ein auðveldasta leiðin til að brenna peninga og gera þjóðina fátæka.

Vítahringurinn er hættulegur, af því að á hverjum stað og hverri stundu er freistandi fyrir ráðamenn að taka heimamenn fram yfir aðra, í trausti þess, að hinir geri ekki slíkt hið sama; og raunar líka í trausti þess, að útsvarsgreiðendur séu sáttir við hjálparstarfið.

Sú skoðun bæjarstjóra Hafnarfjarðar, að reisa megi virkismúra um Hafnarfjörð og vini hans er auðskoðanleg myndbirting af einu stærsta vandamáli heimsins, sem felst í, að heilu ríkjabandalögin, svo sem Evrópusamfélagið, reisa frumstæða múra í kringum sig og vini sína.

Múrana þarf að brjóta og koma á viðskiptafrelsi milli heimsálfa, milli ríkja og milli sveitarfélaga. Hafnarfjörður tapar eins og aðrir á því að vilja vera einn í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV