Vinna taki við af þrasi.

Greinar

Nú er að verða nóg komið af pexi um súrál, Ísal og Alusuisse. Allir málsaðilar eru búnir að segja mörgum sinnum það, sem þeir vilja segja. Síðustu daga hefur fátt nýtt komið fram. Umræðan er að verða að þrástagi.

Framundan er vinna, fremur en umræða. Annars vegar þarf hið fyrsta að hefja viðræður við Alusuisse um niðurstöður skýrslu brezku endurskoðendanna. Jafnframt þarf að hefja rannsókn á rafskautakaupum og lánakjörum Ísal.

Viðræðurnar við Alusuisse munu síðan leiða í ljós, hvort ástæða er til málshöfðunar eða ekki. Til öryggis er rétt að hefja strax undirbúning slíkrar málshöfðunar, bæði til að flýta fyrir og til að sýna festu.

Rétt er að leggja áherzlu á, að Morgunblaðið er á villigötum í áherzlunni á heildarmynd viðskipta Ísals og Alusuisse. Hún kemur í ljós á sínum tíma, en nú strax er hægt að skoða samningsrof í súrálsviðskiptum.

Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra hefur í stórum dráttum slegið sér upp á máli þessu. Enda veitti honum ekki af, eftir þann álitshnekki, sem hann beið í vetur vegna seinagangs og tvístigs í virkjanamálum.

Þá fékk hann orð fyrir að vera lítill framkvæmdamaður, en þeim mun meiri maður pappírsgagna. Síðari hæfileikinn hefur nýtzt honum betur í súrálsmálinu, enda segja menn nú, að hann hefði orðið ágætur endurskoðandi!

Efnislega séð hefur Hjörleifur gengið nokkrum sinnum of langt. Alusuisse var hvorki í vetur né nú satt að sök. Sökin er aðeins líkleg, ekki 100% örugg. Málið hefur ekki enn komið fyrir dóm, hvað sem síðar verður.

Pólitískt hefur Hjörleifur hins vegar náð þeim árangri að einangra þingflokk sjálfstæðismanna og Morgunblaðið í einhverri mestu stjórnmálafýlu síðustu ára. Þetta bragð hefur gert honum kleift að halda þjarkinu áfram.

Morgunblaðið hefur að undanförnu verið nánast ein samfelld varnarræða fyrir Alusuisse og árás á Hjörleif. Í öllu því flatarmáli fer mjög litið fyrir stuðningi við, að haldið verði á málinu af festu, þótt hann sjáist endrum og eins.

Hitt málgagn þingflokks sjálfstæðismanna hefur hins vegar ekki fallið í þessa gryfju. Vísir hefur meira að segja varað við henni. Og Alþýðuflokkurinn hefur líka tekið tiltölulega skynsamlega á málinu og ekki lagzt í sjálfvirka stjórnarandstöðu.

Morgunblaðið hefur átt einkar erfitt með að stöðva sig á fluginu. Það flytur daglegar breiðsíður um mistök Hjörleifs, mikilvægi Ísals og göt á skýrslu hinna brezku endurskoðenda, eins og það sé málgagn Alusuisse.

Þjóðviljinn hendir þetta allt á lofti og notar til að halda þrasinu áfram. Hjörleifur hefur lýst sérstökum fögnuði yfir mikilli útbreiðslu Morgunblaðsins. Og jafnframt er teygður lopinn í ferðasögu Inga R. Helgasonar til Ástralíu.

Moldviðrið fer nú senn að lægja, enda tími til kominn. Komið hefur í ljós, að málsaðilar eru ekki sammála um túlkun atriða. Niðurstaða fæst aldrei á málfundi fjölmiðlanna, heldur verður samkomulag eða dómstóll að skera úr.

Svo vel vill til, að samningur er um viðskiptin og um meðferð deilumála sem þessa. Það hlýtur að vera hægt að finna, hvort eitt eða fleiri ákvæði þessa samnings hafa verið brotin. Það er sú vinna, sem nú skiptir máli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið