Vinnukonuútsvörin

Greinar

Ef við gerum ráð fyrir, að fjölskylda búi í 200 fermetra einbýlishúsi á dýrri eignarlóð á Seltjarnarnesi, má reikna með, að hún taki einnig drjúgan þátt í rekstri þjóðfélagsins, ­ hún sé siðferðilega skyldug til að taka hlutfallslega mikinn þátt í sameiginlegum kostnaði.

Ef þar við bætist, að fjölskylda þessi sækir mjólkina á átta gata torfærutæki, dvelst vikum saman í stóru sumarhúsi norður í landi og er tíður gestur í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, er enn frekar hægt að ætlast til, að hún leggi sitt af mörkum til sameiginlegra þarfa.

Ef fjölskylda þessi greiðir samtals 666.945 krónur í opinber gjöld á þessu ári, fyrir utan söluskatta, má þjóðfélagið vera ánægt með sinn hlut. Báðir hafa greinilega grætt, fjölskyldan og þjóðfélagið. Ef allir græddu svona, væri ekki erfitt að reka fyrirtækið Ísland með gróða.

Raunar gæti allt verið í lagi, þótt fjölskyldan greiddi ekki nema 500.000 krónur í opinber gjöld. Það væri bitamunur, en ekki fjár. Þjóðfélagið fengi svo mikið í sinn hlut, að starfskröftum skattamála væri betur og gróðavænlegar varið í annað en að rexa út af mismuninum.

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir, að fjölskyldan greiði aðeins 300.000 krónur í opinber gjöld, er greinilega eitthvað að hvoru tveggja, skattakerfinu og siðferðisvitund fjölskyldunnar. Aðrir skattborgarar þurfa að reiða fram mismuninn, svo að þjóðfélagið fái sitt.

Ef við gerum loks ráð fyrir, að fjölskyldan greiði aðeins vinnukonuútsvar, eins og hún sé svo fátæk, að hún þurfi að reisa hótel eða kaupa olíufélög til að bjarga sér fyrir horn, er tímabært að hringja aðvörunar-bjöllu, ­ vegna allra hinna, sem verða að borga brúsann.

Þetta er einmitt helzta ástæða óvinsælda skatta hér á landi. Meirihluti þjóðarinnar borgar háa skatta, en telur sig samt búa við lakari lífsskilyrði en fólkið með vinnukonuútsvörin. Þessi þverstæða stuðlar að því, að hver reynir, sem betur getur, að ná tekjum undan skatti.

Skattstofur og skattrannsóknastofur hafa léleg vopn í höndum, þegar þeim er sigað á minniháttar fríðindi í skattskýrslum opinberra starfsmanna og annars launa fólks. Úr slíku vafstri fær ríkið lítið, en magnar um leið hatur fólks á augljósu ranglæti skattakerfisins.

Ef skattstofur og skattrannsóknastofur mættu hins vegar lyfta sjónum upp úr skattskýrslum og fá að meta lífsskilyrði þeirra, sem greiða vinnukonuútsvör, en búa í dýrum húsum, aka dýrum bílum og stunda dýr sumarleyfi, kynnu summurnar að fara að velta inn í sjóðinn.

Svo kann að vera, að ekkert af þessu sjáist á skattskýrslu. Þess vegna þurfa að vera til viðbótaraðferðir til að minnka aðstöðumun skattgreiðenda, ekki til að stunda sparðatíning, heldur til að ná til þeirra, sem virðast hlunnfara hinn sameiginlega sjóð um stórfé.

Margir munu segja, að með þessu sé verið að hnýsast í einkamál fólks. Það kann rétt að vera og verður að gerast án þess að fara með nefið niður í hvern kopp. En hinir hagsmunirnir eru yfirgnæfandi ­ að auka traust þjóðarinnar á skattkerfinu og draga úr skattsvikaþrá.

Í stað minniháttar eltingaleiks við frádrátt af ýmsu tagi og annað smáræði á skattframtölum á ríkið að beina geiri sínum að hinum, sem greinilega lifa í vellystingum praktuglega og borga samt aðeins vinnukonuútsvar. Þá gæti kerfið lækkað skattana á öllum hinum.

Lækkaðir skattar mundu svo enn draga úr skattsvikaþorsta þjóðarinnar. Lækning vinnukonuútsvarsins yrði spírall í átt til betra og sáttara Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV