Vinsamlegt árangursleysi

Greinar

Landhelgisviðræðurnar við Vestur-Þjóðverja komast á nýtt og betra stig, þegar Willy Brandt kanslari kemur hingað til lands í ágúst. Hann er kunnur fyrir samningalipurð og sanngirni. 0g hann hefur embættis síns vegna meira svigrúm til samninga en þeir menn, sem hingað til hafa verið fulltrúar Vestur-Þýskalands í landhelgisviðræðunum.

Enginn áþreifanlegur eða umtalsverður árangur náðist í viðræðum Íslendinga og Vestur-Þjóðverja á föstudaginn. Þjóðverjarnir boðuðu komu Brandts og áttu þannig verulegan hlut að því að gera viðræðurnar vinsamlegar. Þeir létu líka hjá líða að gera sér áróðursmat úr kúluskoti Alberts fyrir framan stefni vesturþýzka togarans ðnfisch nóttina fyrir samningafundinn. Þráteflið á fundinum fór því fram í mesta bróðerni, en var þrátefli eigi að síður.

Að fundinum loknum virðist ekki bera minna milli deiluaðila en bar milli Íslendinga og Breta eftir síðasta fundinn í Reykjavík. Alveg eins og þá eru menn nú ósammála um leyfilegt aflamagn. Og munurinn á tilboðum beggja aðila virðist hlutfallslega ekki vera minni í viðræðunum við Vestur-Þjóðverja en í viðræðunum við Breta. Við buðum Bretum 117 þúsund lestir, en þeir buðu l45 þúsund á móti og gáfu í skyn, að þeir gætu hugsað sér að fara niður í 135 þúsund lestir. Við buðum Vestur-Þjóðverjum,65 þúsund lestir, en þeir buðu 160 þúsund á móti og eru sagðir vera til viðtals um 80 þúsund lestir.

Íslendingar vilja eðlilega binda veiðarnar enn frekar. Rýrnun fiskistofnanna er svo ör, að tölur um aflamagn geta fljótt orðið úreltar. Svo kann að fara að fáum árum liðnum, að umsamið aflamagn náist ekki einu sinni, hve mikið sem skarkað er á miðunum. Vestur-Þjóðverjar virðast geta sætt sig við hugmyndir um takmörkun á skipafjölda og víxllokun veiðisvæða, auk þess sem þeir geta sætt sig við, að íslenzk varðskip hafi eftirlit með því, að reglum sé fylgt.

Áð öðru leyti gengu þeir lítið til móts við sjónarmið Íslendinga. Þeir eru harðir á því, að verksmiðjuskip megi vera í hópi þeirra togara, sem fá að veiða innan 50 mílna. Ennfremur vilja þeir láta draga vesturþýzku togaraskipstjórana fyrir dómstól heima í Þýzkalandi, en ekki hér á landi. Þeir eru þó ekki eins harðir á þessu síðara atriði og hinu fyrra.

Bretar hafa ekki verksmiðjutogara á Íslandsmiðum, svo að erfiðasta atriðið í viðræðum Íslendinga og Vestur-Þjóðverja snertir þá ekki. Í heildina er því alls ekki hægt að segja, að minna muni í viðræðunum við Vestur-Þjóðverja en í viðræðunum við Breta. Fremur er ástæða til að ætla, að bilið gagnvart Vestur-Þjóðverjum sé breiðara hlutfallslega, ef allt er saman talið.

En það skiptir náttúrlega miklu máli, í hvaða andrúmslofti er verið að ræðast við. Í viðræðunum við Breta hefur ríkt kuldi og hnútur hafa flogið um borð. Á síðasta fundinum með Vestur-Þjóðverjum ríkti hins vegar sól og blíða. Í slíku felst vissulega enginn áþreifanlegur árangur, aðeins von um, að blíðan muni endast, þangað til Willy Brandt kemur til landsins í ágúst.

Jónas Kristjánsson

Vísir