Vinstra framboð á upphafsreit

Greinar

Við myndun meirihluta í sveitarstjórnum eftir kosningarnar hefur komið í ljós, að Framsóknarflokknum lætur betur að starfa með Sjálfstæðisflokknum en sameiginlegu framboði á vinstri vængnum. Sveitarfélögum hægra mynzturs hefur fjölgað úr þremur í níu.

Ekki er heldur hægt að sjá, að vinstri framboðunum falli betur að starfa með Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokknum. Fyrra mynztrið sést í myndun meirihluta í fimm sveitarfélögum og hið síðara í fjórum. Frá vinstri vængnum séð eru hægri flokkarnir tveir.

Þetta staðfestir, að Framsóknarflokkurinn verður ekki aðili að vinstra framboði í alþingiskosningum að ári. Þátttaka hans í slíku samstarfi í sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Vestmannaeyjum stafar eingöngu af staðbundnum aðstæðum.

Úrslit kosninganna hvetja hvorki né letja til samstarfs Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalista á landsvísu. Að meðaltali náðu þessir flokkar sameiginlega svipuðu fylgi og þeir náðu áður samtals hver í sínu lagi. Þeir héldu sínu, en unnu ekki ný lönd.

Villandi er að reikna atkvæði vinstri framboða upp í rúmlega 43% fylgi, því að framsóknarfylgið í Reykjavík og víðar er inni í tölunni. Því er langt frá, að væntanlegt samframboð á vinstri vængnum haldi til jafns við 43% fylgi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum.

Hitt er svo líka rétt, að sveitarstjórnarkosningarnar reyndust vera létt æfing við hagstæð skilyrði fyrir vinstra framboð á erfiðari landsvísu. Í grasrót flokkanna hefur verið efnt til samstarfs, sem ráðríkir héraðshöfðingjar á þingi munu tæpast geta staðið gegn.

Íslenzk stjórnmál hafa fallið í þann farveg, að þau snúast meira um sterka leiðtoga en málefnalegan ágreining flokka, sem hefur farið ört dofnandi. Hægri vængurinn hefur sinn Davíð í húsi, en vinstri vængurinn hefur enn ekki Ingibjörgu Sólrúnu.

Komið hefur fram í hverju málinu á fætur öðru, að í landsmálunum er lengstur vegur milli frjálshyggjuafla Alþýðuflokksins og vaðmálsafla Alþýðubandalagsins. Sameiginlegt framboð flokkanna stendur því og fellur með sterkum leiðtoga, sem blæs á ágreininginn.

Enginn flokksformaður eða fyrrverandi formannsframbjóðandi á vinstri vængnum getur haldið til jafns við Davíð. Jóhönnu Sigurðardóttur vantar að vísu ekki traust almennings, en hana skortir lagni til að halda saman andstæðum vængjum vinstra framboðs.

Engin önnur leið virðist vera úr leiðtogaraunum vinstri aflanna en að leita ásjár þeirrar stjórnmálakonu, sem hefði fengið enn fleiri atkvæði, ef hún hefði verið alein á framboðslistanum, en listinn fékk allur. Hún heldur aga á liði sínu og getur tekið Davíð í nefið.

Ekki má þá gleyma, að Ingibjörg Sólrún er borgarstjóri Framsóknarflokksins eins og annarra framboðsafla Reykjavíkurlistans. Hún þarf að spila úr því vandamáli eins og loforðum um tryggð við borgarstjórastólinn, ef hún tekur vinstri forustu á landsvísu.

Sveitarstjórnarkosningarnar hafa ekki fært drauma um sameiginlegt framboð vinstra fólks nær veruleikanum. Staðan er svipuð og hún var fyrir kosningar. Grasrótin getur unnið saman, en höfðingjarnir tæpast. Og Ingibjörg Sólrún hefur engin færi gefið enn.

Ef til vill verður eftirlátið Sverri laxveiðimanni að slá pólitískar keilur út á andstöðu þjóðarinnar við flest helztu mál núverandi ríkisstjórnar sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV