Virðisaukaskattur drepinn

Greinar

Fjármálaráðherra hefur á vegum ríkisstjórnarinnar látið gera drög að frumvarpi um virðisaukaskatt, sem ráðgert hafði verið, að tæki við af söluskatti eftir rúmt ár. Þessi drög eru allt önnur og langtum verri en stuðningsmenn virðisaukaskatts höfðu vonað.

Í stað einfaldra skipta á söluskatti og virðisaukaskatti er gert ráð fyrir að nota tækifærið til að stórauka millifærslukerfi ríkissjóðs. Snúa á við af brautinni í átt til náttúrulegs hagkerfis og stefna í átt til miðstýrðs hagkerfis, þar sem hver króna fer um hendur ríkisins.

Svo kann að vera, að embættismenn fjármálaráðuneytisins telji heppilegast, að sem mestu af peningum þjóðarinnar sé velt í gegnum ríkissjóð. En furðulegt er, að ríkisstjórn, sem ekki er vinstri stjórn, skuli hyggjast koma á margefldu millifærslukerfi á þennan hátt.

Drög fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir, að hinn fyrirhugaði virðisaukaskattur auki árleg umsvif ríkissjóðs um 2,6 milljarða króna. Eru það um 6­7% af fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar á ofan er ljóst, að upphæðin er vanáætluð vegna húsnæðisráðagerða.

Virðisaukaskatturinn leggst á mun breiðari grunn en söluskatturinn gerir nú. Þess vegna hefði verið hægt að lækka álagningarprósentuna. Þá hefði sum vara og þjónusta hækkað í verði og önnur lækkað. Það hefði í stórum dráttum komið út á eitt fyrir þjóðina.

Þar sem matvörur eru í þeim flokki, sem virðisaukaskatturinn hækkar, hefði mátt hagræða prósentunni lítillega, svo að örfá hundruð milljóna væru til ráðstöfunar til fjölskyldu- eða barnabóta, svo að barnmargar fjölskyldur sköðuðust ekki sérstaklega af breytingunni.

Í stað smávægilegrar millifærslu af því tagi hyggst embættismannakerfið, fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin koma upp stórfelldu millifærslukerfi, sem meðal annars á að koma út óseljanlegum landbúnaðarvörum, troða meira dilkakjöti og mjólkurvörum í þjóðina.

Í þjóðfélagi, þar sem arðbær verkefni kalla sífellt á fleiri vinnufúsar hendur en til eru, ætlar kerfið að nota tækifæri virðisaukaskatts til að halda dauðahaldi í sem mest af dulbúnu atvinnuleysi hins hefðbundna landbúnaðar. Það ætlar að tvöfalda niðurgreiðslur búvöru.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru niðurgreiðslur gerðar fyrir þá atvinnugrein, sem framleiðir hina niðurgreiddu vöru, en ekki fyrir neytendur. Ef ákveðnar vörur eru niðurgreiddar en ekki aðrar, er það í þágu hagsmunaaðila, en ekki almennings.

Ef virðisaukaskattur er notaður til slíks verkefnis, er um hreina skattaaukningu að ræða, sem þar að auki skekkir atvinnulífið, styður vanheilsu þess í stað heilbrigðis. Slíkur skattur er verri en söluskatturinn, sem við búum nú við ­ fer með okkur úr öskunni í eldinn.

Margir hafa lýst áhyggjum af aukinni skriffinnsku, sem erlendis hefur komið í ljós, að fylgir virðisaukaskatti. Sumir þeirra hafa þó stutt skattinn, af því að hann væri sanngjarnari en söluskattur að því leyti, að hann væri alveg eða næstum án undantekninga.

Í umræðunum hefur verið gert ráð fyrir, að breiðari grunnur virðisaukaskattsins lækkaði hina háu álagningarprósentu söluskattsins, sem hefur gert skattinn óvinsælan og stuðlað að skattsvikum. Ekki var talað um að nota hann til millifærslu og miðstýringar.

Hvort sem frumvarpsdrögin stafa af græðgi, heimsku eða kommúnisma, þá er ljóst, að samúðin með virðisaukaskattinum hverfur. Hann hefur verið drepinn.

Jónas Kristjánsson

DV