Vísað skakkt til Jalta.

Greinar

Jalta er í tízku um þessar mundir, 37 árum eftir hinn fræga fund, er Stalín, Churchill og fárveikur Roosevelt skiptu með sér áhrifasvæðum í Evrópu, – auðvitað að forspurðum öllum þeim, sem málið varðaði í raun og veru.

Schmidt Þýzkalandskanzlari vísar til Jalta-samkomulagsins til að verja aumlega framgöngu sína í Póllandsmálinu. Hinir einbeittari, Mitterrand Frakklandsforseti og Jóhannes Páll páfi, segja þetta samkomulag hins vegar úrelt.

Í þessari umræðu felst sá misskilningur, að Sovétríkin hafi fengið fullt umboð til að ráðskast með Austur-Evrópu eins og þeim sýnist. Í Teheran árið 1944 og Jalta árið 1945 var aðeins talað um áhrifasvæði, ekki eignarsvæði.

Jalta-samkomulagið gerði meira að segja ráð fyrir frjálsum kosningum í Austur-Evrópu. Þar átti að vera lýðræðislegt stjórnarfar, þótt ríkisstjórnirnar skyldu í utanríkismálum taka tillit til sovézkra hagsmuna.

Ef staðið hefði verið við Jalta-samkomulagið, væri stjórnarfar í Austur-Evrópu ekki fjarri því, sem er í Finnlandi, frjáls samkeppni stjórnmálaflokka um völd, en þegjandi samkomulag þeirra um tillitssemi við Sovétríkin.

Herlögin í Póllandi eru ekki í samræmi við Jaltasamkomulagið, eins og margir virðast halda. Þau eru þvert á móti brot á samkomulaginu, alveg eins og innrásirnar í Ungverjaland árið 1956 og Tékkóslóvakíu árið 1968.

Ekki er heldur rétt, að Helsinki-samkomulagið frá 1975 hafi staðfest eignarhald Sovétríkjanna á Austur-Evrópu. Það staðfesti aðeins gildandi landamæri í Evrópu, þar á meðal skiptingu Þýzkalands í tvö ríki.

Í Helsinki-samkomulaginu er hins vegar kafli um mannréttindi, sem stjórnvöld í Sovétríkjunum, Póllandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu hafa þverbrotið. Herlögin í Póllandi eru nýjasta brotið á mannréttindakaflanum.

Hvergi er fótur fyrir, að hegðun Sovétríkjanna og skósveina þeirra í Austur-Evrópu sé í samræmi við samkomulag um skiptingu áhrifasvæða. Framferði þeirra brýtur bæði í bága við Jalta-samkomulagið og Helsinki-samkomulagið.

Að vísu hefur takmarkað gildi að ræða um undirskriftir Kremlverja. Þeir taka sjálfir ekkert mark á slíku, svo sem dæmin sanna. Í rauninni ættu herlögin að vera viðvörun þeim, sem ímynda sér, að hægt sé að gera við þá marktæka samninga.

Sovézkir ráðamenn undirrita samninga, þegar það hentar þeim í hléum baráttunnar fyrir heimsyfirráðum, til dæmis þegar þeir vilja örva til dáða fimmtu herdeildir sínar í Vestur-Evrópu, friðarhreyfingarnar svonefndu.

Þess á milli sýna Sovétríkin hramminn, bæði beint og óbeint. Þau beita fyrir sig Kúbu í yfirganginum í Angóla frá 1975 og Eþiópíu frá 1977. Í Póllandi hefur heimamaðurinn Jaruzelski verið settur á oddinn.

Í annan tíma ganga þau beint til verks, svo sem í Ungverjalandi 1956, Tékkóslóvakíu 1968 og nú síðast í Afganistan allt frá 1978. Þær innrásir sýna hið rétta andlit heimsvaldastefnunnar milli samninga um afvopnun, grið og frið.

Ekki er fyrirséð, hvort Vesturlönd geta einhvern tíma stöðvað útþenslu- og heimsvaldastefnu Sovétríkjanna. En á meðan er ástæðulaust að telja sér trú um, að hún sé í einhverju samræmi við gamla eða nýja samninga.

Jónas Kristjánsson

DV