Halldóri Ásgrímssyni sjávarútvegsráðherra hefur tekizt að sannfæra allan þorra þjóðarinnar um nauðsyn þess, að hvalveiðum verði haldið áfram við Ísland. Fjórir af hverjum fimm Íslendingum reyndust vera á hans bandi í skoðanakönnun, sem nýlega var skýrt frá í DV.
Þetta er mikið afrek Halldórs. Ekki er ýkja langt síðan fólk var almennt búið að sætta sig við, að hvalveiðar yrðu lagðar niður hér við land í áföngum á nokkrum árum. Þá var allt í einu fundið upp, að samt yrði að veiða um hundrað hvali á ári í svokölluðu vísindaskyni.
Hin nýja vísindahugsjón varð fljótlega ofan á, mest fyrir einarðan málflutning ráðherrans, en einnig vegna hvatvísi launaðra grænfriðunga, sem bitu í skjaldarrendur í Reykjavíkurhöfn í sumar. Þeir hafa játað hrakför sína, en búast nú til gagnsóknar.
Minni sögum fer af sannfæringarkrafti ráðherrans í útlöndum. Þó hefur honum tekizt að vekja áhuga ýmissa þeirra stjórnvalda, sem hagsmuni hafa af hvalveiðum, á að taka saman höndum í vörn fyrir hinni nýstárlegu hugsjón vísindalegra rannsókna í mynd hvalveiða.
Róður Íslendinga og annarra hugsjónamanna um hvalarannsóknir mun vafalaust þyngjast á næstunni. Í fyrsta lagi hafa grænfriðungar lært af mistökum sínum og munu í næstu sókn fara gætilegar en áður. Og í öðru lagi hefur þeim í öðru máli verið færð samúð á silfurfati.
Hin hrapallega útreið Mitterrands Frakklandsforseta og manna hans í eftirleik hryðjuverksins á Nýja-Sjálandi hefur magnað stuðning við grænfriðunga um allan heim og ekki sízt í Bandaríkjunum. Þar hefur fjölgað þeim, sem kæra sig ekki um að lenda í útistöðum við þá.
Litlu máli skiptir, þótt skoðanakönnun hafi sýnt, að mikill meirihluti Bandaríkjamanna sé hlynntur hvalveiðum alveg eins og Íslendingar. Það er að vísu huggun íslenzkum hugsjónamönnum um hvalarannsóknir, en aðeins huggun. Málið verður ekki afgreitt á slíkum vettvangi.
Það, sem máli skiptir fyrir okkur, er, hvort hinir stóru viðskiptavinir Íslendinga, svo sem stjórnendur Long John Silver veitingahúsakeðjunnar, fá hland fyrir hjartað eða ekki. Úrslitum ræður, hvort þeir telja grænfriðunga geta fælt frá sér viðskiptavini eða ekki.
Forstjóri Long John Silver hefur raunar þegar sagzt ekki taka neina áhættu á þessu sviði. Hann hefur sagzt hafa takmarkaða trú á vísindahugsjón Íslendinga í máli þessu. Augljóst er, að hann mun beygja sig um leið og fyrstu grænfriðungarnir birtast fyrir utan veitingahúsin.
Þegar þar að kemur, munu vísindahugsjónir sjávarútvegsráðherra okkar og samtök hans með starfsbræðrum frá ýmsum hvalveiðiþjóðum hverfa eins og dögg fyrir sólu. Hagsmunir okkar felast nefnilega í sölu á frystum fiski til Bandaríkjanna, en ekki í hvalveiðum.
Auðvitað er gaman fyrir okkur Íslendinga með ráðherrann í broddi fylkingar að vera stoltir og neita að beygja sig fyrir launuðum starfsmönnum þeirra, sem við teljum vera ríkar og tilfinningasamar kerlingar að baki grænfriðunga. En samt munu hagsmunir okkar ráða.
Við skulum vera undir það búin, að fisksöluhagsmunir okkar í Bandaríkjunum krefjist þess frekar fyrr en síðar, að við látum af hvalveiðum, alveg eins og við vorum búin að sætta okkur við, áður en uppákoma hinna vísindalegu hugsjóna fór að rugla okkur í ríminu.
Jónas Kristjánsson.
DV