Jonathan Freedland segir í Guardian, að Bandaríkjamenn eigi í erfiðleikum með þá stefnu að hunza alla bandamenn, alla sáttmála, allar fjölþjóðastofnanir og allan umheiminn yfirleitt. Þeir geti ekki kvartað yfir meðferð stríðsfanga, af því að þeir hafa sjálfir hunzað Genfarsáttmálann. Þeir geta ekki kvartað yfir sölu hernaðarlega mikilvægra tækja frá Rússlandi til Írak, af því að þeir hafa sjálfir rofið sáttamálann um þau efni. Þeir geta ekki beðið Frakka og Þjóðverja um að taka þátt í að borga tjónið af stríðinu í Írak, af því að þeir hafa hunzað þessar þjóðir og valið þeim hin verstu orð. Þeir geta ekki dregið helztu valdhafa Íraks fyrir alvöru stríðsglæpadómstól, af því að þeir hafa sjálfir hunzað Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn. Í fjölþjóðsamstarfinu vissu þeir ekki, hvað þeir átt höfðu, fyrr en þeir höfðu hafnað því og þar með misst höfðu.