Alþjóðlegar reglur gilda um „lífræna“ ræktun og sjálfstæðar eftirlitsstöðvar votta framleiðendur á því sviði. Bændasamtökin hafa langalengi brugðið fæti fyrir lífræna ræktun og vottun hér á landi. Í því skyni skelltu þau á heitinu vistvænt, sem nær almennt yfir íslenzkan landbúnað. Árum saman hefur ekkert eftirlit verið með, að notendur slagorðsins „vistvænt“ fari eftir einhverjum sérstökum reglum. Neytendasamtökin hafa gert athugasemdir við blekkinguna og ráðunautur Bændasamtakanna viðurkennir, að hún sé marklaus. Sérfræðingur í umhverfismálum segir vistvænt ekki tákna neitt umfram hefðbundinn landbúnað.