Vit í stað fálms.

Greinar

“Fimm ára börnin læra að þekkja stafina og hljóðin. Þegar þau eru orðin árinu eldri, geta þau lesið nokkuð þunga texta og byrja að nota vinnubækur. Í sjö og átta ára bekk geta þau farið að glíma við alls konar stórverkefni, sem ekki eru unnin í öðrum skólum.

Áhugi sex ára barna er mikill. Þau eru næm og fljót að tileinka sér námið. Foreldrarnir segja, að þau hlakki til að fara í skólann, þeim finnist námið svo skemmtilegt.” Þetta sagði Anton Sigurðsson, skólastjóri Ísaksskóla, í viðtali við Dagblaðið fyrir helgina.

Ísaksskóli er dæmi um tegund af stofnun, sem öll börn á fimm og sex ára aldri ættu að hafa aðgang að. Á þessum aldri eru börn sérstaklega næm á ýmsum sviðum, til dæmis í lestri. En því miður segir skólakerfið pass.

Um nokkurt árabil hafa marklitlar sex ára deildir verið reknar við marga skóla. Í rauninni eru það leikskólar með óvenju stuttum skólatíma, tveimur klukkustundum á dag. Og lestrarkennslan er þar sérdeilis hægfara.

Sumir skólamenn eru haldnir þeirri firru, að of þungt sé fyrir börn á þessum aldrei að læra. En dæmið úr Ísaksskóla sýnir, að fimm og sex ára börn hafa gaman af að læra og að skólaganga þarf ekki að vera fálm út í loftið.

Augljóslega hafa þau börn mikið forskot í lífinu, sem kunna að lesa, þegar þau koma Í sjö ára bekk, og þeim mun betra, sem þau kunna meira. Allt frekara nám verður þeim miklu léttara en hinum, sem fara hina hefðbundnu leið.

Skólakerfi, sem telur eðlilegt, að þrjú ár, frá sjö til níu ára aldurs, fari Í að læra að lesa og skrifa, auk einföldustu samlagningar og frádráttar, er greinilega fremur ætlað sem geymslustofnun en eiginlegur skóli.

Ofan á þessa hörmung bætist svo árátta skólakerfisins, að allir nemendur skuli í framtíðinni verða jafnaðarmenn í hægu embætti. Í kerfinu er ekkert pláss fyrir verðandi uppfinningamenn, skipstjóra, braskara, vísindamenn og aðra slíka hornsteina þjóðfélags á framabraut.

Bragi Jósepsson lektor hefur barizt fyrir því, að Reykjavíkurborg taki upp alvörukennslu í sex ára deildum. Meirihluti fræðsluráðs hefur samþykkt þetta með atkvæðum Braga og sjálfstæðismanna og stuðningi kennarafulltrúa, en framsóknar- og alþýðubandalagsmenn sátu hjá.

Málið er engan veginn komið í höfn, því að það felur meðal annars í sér viðræður milli borgar og ríkis um peninga. Það kostar auðvitað töluvert fé að auka skólatíma sex ára barna upp í hið sama og hjá sjö ára börnum.

Bragi hefur skrifað nokkrar kjallaragreinar í Dagblaðið um þetta mál og önnur skyld nauðsynjamál skólakerfisins. Hann hefur m.a. bent á, að við höfum dregizt aftur ár nálægum ríkjum í kennslu barna undir sjö ára aldri.

Þetta er mun mikilvægara en að halda öllum unglingum í skólum löngu eftir að sumir þeirra eru orðnir uppgefnir og vilja komast út í raunveruleikann, á sjóinn eða í aðrar greinar atvinnulífsins.

Hugmyndir þær, sem orðið hafa ofan á í fræðsluráði Reykjavíkur að undirlagi Braga Jósepssonar stefna í rauninni að því, að öll börn fái aðgang að lyftistöng á borð við Ísaksskóla, fyrst sex ára börn og vonandi síðar fimm ára einnig.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið