Vítaverðar tillögur

Greinar

Þegar málskraf og óskhyggja hafa verið skorin utan af tillögum aðila vinnumarkaðarins til ríkisstjórnarinnar, stendur eftir tillaga um, að teknir verði 2,2 milljarðar að láni í útlöndum til að flytja hluta af atvinnuleysi þessa árs og næsta árs til áranna, sem koma þar á eftir.

Með þessu leggja aðilar vinnumarkaðarins til, að þjóðin geri hvort tveggja í senn, stingi höfðinu í sandinn og pissi í skóinn sinn. Tillagan fjallar ekki um, að dregið verði úr atvinnuleysi, heldur verði það fært milli tímabila. Í tillögunni felst, að frestur sé á illu beztur.

Til að borga þetta á samkvæmt tillögunum að taka skammtímalán í útlöndum að færeyskum hætti, jafnvel þótt leitun sé að þeim, sem ekki telur fyrri lántökur þegar vera komnar yfir hættumörk. Slík höfuðverkjartafla gagnast ekki, ef sjúkdómurinn geisar áfram.

Þessi kjarni í tillögum aðila vinnumarkaðarins er ekki aðeins heimskulegur, heldur vítaverður. Það sýnir bezt ábyrgðarleysi og flottræfilshátt í þjóðmálunum, að þekktir menn skuli leggja nafn sitt við annað eins endemi og þessa 2,2 milljarða króna höfuðverkjartöflu.

Leiðtogar aðila vinnumarkaðarins eru annað hvort veruleikafirrtir eins og leiðtogar opinberra starfsmanna eða taka alls ekkert mark á eigin tillögum. Vandamál atvinnuleysis og versnandi lífskjara byggjast á forsendum, sem eru utan áhrifasviðs þessara tillagna.

Formaður vinnuveitenda sagði nýlega á fundi, að þjóðin hefði í einn áratug sóað sem svarar fjórum milljörðum króna á hverju ári í Blönduvirkjun, fiskeldi, loðdýr, ull og fleira þjóðlegt. Ef þjóðin hættir að sóa slíkum fjármunum, stígur hún fyrsta skrefið fram á veg.

Formaður vinnuveitenda gat þess ekki, að þjóðin hefur sóað, sóar enn og ætlar framvegis að sóa sem svarar níu milljörðum á hverju ári af fé skattgreiðenda í hefðbundinn landbúnað og sem svarar tólf milljörðum á hverju ári af fé neytenda í sama þjóðlega tilgangi.

Formaður vinnuveitenda og aðrir félagar hinnar pólitísku yfirstéttar í landinu hafa staðið fyrir þessari rúmlega tuttugu milljarða árlegri sóun í landbúnaði, sem veldur því, að atvinnuleysi er nú komið upp í hærri tölur en nemur samanlagðri atvinnu í landbúnaði.

Þjóðin er auralaus til átaka í atvinnuaukningu og lífskjarabótum af því að hún hefur sóað meira en tuttugu milljörðum árlega til hefðbundins landbúnaðar. Fjögurra milljarða árleg viðbótarsóun í Blöndu, refi og fleira þjóðlegt er bara viðbót ofan á stóra sukkið.

Er þjóðin ræðst gegn verðmætabrennslunni, munu vandamál atvinnuleysis og fátæktar leysast smám saman af sjálfu sér. En það gerist ekki fyrr en hún losar sig við hina pólitísku yfirstétt, sem ráfar veruleikafirrt í ríkisstjórnum, á Alþingi og í hagsmunasamtökum.

Ekkert bendir til, að á neinum þessara valdastóla sitji nokkur, sem muni í náinni framtíð lyfta höfðinu upp úr sandinum. Því meiri jarðskjálftar sem verða í atvinnu og efnahag, þeim mun fastar mun pólitíska yfirstéttin einbeita sér að málskrafi og óskhyggju.

Þjóðin hefur lengi hagað sér þannig í vali yfirmanna sinna í þjóðmálum og félagsmálum, að hún kemst ekki hjá vaxandi atvinnuleysi og versnandi lífskjörum, hvort sem haldið verður áfram á vegi sjónhverfinga eða loksins farið að skera á grundvallar-meinsemdirnar að baki.

Með uppskurði hefur hún þó von um betri tíð eftir nokkur ár. Vítaverðar tillögur aðila vinnumarkaðarins færa ekki með sér minnstu von um slíka tíð.

Jónas Kristjánsson

DV