Vöð

Hestar

Sandbleytur í jökulám

Hjalti Gunnarsson:

Mikla aðgát þarf á vöðum jökulfljóta, einkum út af sandbleytum, til dæmis í Ströngukvísl. Ég reyni að sjá af straumfallinu, hvar eru lygnur, sem beri að forðast vegna sandbleytu, og hvar er skrúfustraumur, þar sem búast má við djúpum ál. Ég reyni að finna stað með jöfnum straumi, helzt á broti. Fyrst þarf einn að kanna vaðið, áður en flotinn leggur í ána. Oft leita lausu hrossin neðar og neðar, svo að eftirreiðin fer of neðarlega, ef hún hefur ekki lagt vaðið á minnið.

Hesturinn fái að ráða

Ólafur B. Schram:

Einu sinni gerði ég þau mistök að taka ráð af hesti, sem vildi ekki út í jökulá. Ég hélt að þetta væri þvermóðska, en greyið sökk bara í sandbleytu. Ég fór af baki og áin náði mér í herðar, en við komumst báðir að landi sinn í hvoru lagi. Það borgar sig alltaf að taka mark á því, sem hestar vilja eða vilja ekki gera.
Þegar ég fer yfir ár, reyni ég að fara upp strauminn og hef auga með, hvar landtaka sé sæmileg hinum megin. Ég lærði að fara vöð, þegar ég var í sveit í Öræfunum. Þá vorum við alltaf að sullast í óbrúuðum jökulkvíslum.

Notið leiðsögumann

Andreas Bergmann:

Á ókunnugum slóðum er rosalega mikilvægt að hafa þaulkunnugan mann með í ferð. Slíkt ætti að koma í veg fyrir að fólk villist og á að auðvelda því að finna heppileg vöð, til dæmis yfir jökulár, sem eru sífellt að breyta sér. Stundum verður fólk frá að hverfa í vatnavöxtum, af því að enginn í hópnum þekkir rétta staðinn til að fara yfir við þær aðstæður. Það er til dæmis algengt, að hópar hafa ekki komizt inn í Arnarfell, af því að farartálmar á borð við Miklukvísl geta stækkað í augum þeirra, sem ekki þekkja til. Það eru auðvitað mikil vonbrigði að ná ekki takmarkinu. Þess vegna borgar sig ekki að spara í leiðsögninni.

Nautavað er alltaf eins

Árni Ísleifsson:

Nautavað í Þjórsá er alltaf eins, ein helzta samgönguæð Suðurlands frá fornu fari. Það er breitt og með góðum botni, nema vestast, þar sem það er dálítið grýtt. Vöð á afréttum, til dæmi undir Hofsjökli, eru allt öðru vísi, breytileg og viðsjál. Bezt er að fara þau á broti. Ef eyrar eru milli kvísla, er venjulega heppilegast að halda sig við vatnið og fara aldrei upp í eyrarnar sjálfar, því að þar er sandbleytan, einkum í eyraroddum.

Í Háumýrum lenti ég í því, að reksturinn fór á bólakaf í sandbleytu upp í eyrarodda í Blautukvísl. Þeir ruddust hver á annan og yfir hver annan. Það var ljótt að sjá. Við sáum fljótlega, að sum höfðu rifið undan sér í látunum. Þar sem við áttum ekki nógu margar skeifur í vösunum og þar sem landið var mjúkt á leiðinni í náttstað, ákváðum við að láta slag standa. Þetta fór allt vel að lokum, en við þurftum að járna níu hesta um morguninn.

Ég sat einu sinni hest, sem lenti í sandbleytu. Ég stökk af baki og hesturinn brauzt um fyrst, en gafst síðan upp. Ég beið eftir að hann jafnaði sig. Þegar hann ætlaði að fara brjótast um aftur, gaf ég honum duglegt drag á réttu augnabliki. Ef hesti bregður nógu mikið, tekur hann á öllu sínu og svo var í þessu tilviki. Hann hafði sig á þurrt. Ég held, að það setjist eitthvað að undir hófunum, ef hesturinn bíður aðeins í sandbleytunni, svo að hann fær dálitla spyrnu, þegar hann reynir aftur að komast upp.

Tunguvað hefur færzt ofar

Jón Hermannsson:

Grámelur er hár sandbakki í Tungulandi og liðast Hvítá þar með. Ofar hans eru Kópsvatnseyrar allt til Hvítárgljúfurs og erum við þá komin á besta vað Hvítár og fjölfarnasta gegnum tíðina. Fyrr á öldum var farið litlu ofar Grámels og þá beint í Tungu og eru gamlar götur nefndar Flosatraðir beggja megin árinnar. Ekki þarf mikið hugarflug til að tengja þær liðsbónar Flosa á Svínafelli, víða er sagan nálæg. Eins og nafnið Kópsvatnseyrar ber um, rennur áin í mörgum kvíslum og breytist því vaðið stundum eftir vetrarflóð. Talið er að Tunguvaðið eða Grámelsvað hafi orðið óreitt um 1920 og þá eftir alltaf farið nokkru ofar og er svo enn. Geta má þess að Guðmundur Erlendsson í Skipholti fór með heybandslest yfir á Kópsvatnseyrum og blotnaði lítið heyið ef nóg var þurrkað. Þá heyjaði hann í Pollengi, sem er í tungunni milli Hvítár og Tungufljóts.

Á þarf að ríða á broti

Bjarni E. Sigurðsson:

Ár þarf að ríða á broti. Sandurinn er fastur á brotinu sjálfu. Ef maður fer ofarlega, getur þar verið lausari sandur og jafnvel sandbleytur. Maður reynir að halda hestinum upp í strauminn, svo hann hrekist ekki niður af brotinu, heldur haldi sér á því. Oft er það þröngur vegur til að sleppa þurr yfir á góðu vaði.

Sem strákur í Hornafirði lærði ég fljótt á vöðin með því að fylgjast með, hvernig kýrnar lásu sig yfir þau á brotinu. Í fyrstu ferð minni þvert yfir Skagafjörð kom ég að Héraðsvötnum úr austri, bað ekki um neina aðstoð, heldur tók þau á broti. Þegar ég kom yfir, sá ég til argandi og gargandi manna, sem komu ríðandi af næsta bæ fyrir vestan. Á sama tíma hlupu tveir menn með sömu látum á harðaspretti niður túnið austan vaðsins. Það var bara ekki vaninn, að ókunnugir menn færu þarna yfir. En þetta var létt leið, bara með því að lesa á landið.

Mestu hættuna sá ég inni í Þórsmörk. Við fórum yfir vatnsmikla straumá, þar sem sænsk kona féll í ána. Hún barst niður ána í hröðum straumi í kulda og grjóti. Þorsteinn Hjartarson skólastjóri var í eftirreið, sérstaklega snarráður, reið í loftkostum niður með ánni, 30-40 metra niður fyrir konuna, stökk af baki, óð út í og greip konuna, sem hafði þá verið 30-50 sekúndur í vatninu.

Hann öskraði á fólk að láta sig hafa varaklæðnað. Konan var klædd í hendingskasti úr fötunum og klædd jafnhraðan aftur í skyrtu af einum, buxur af öðrum, peysu af þeim þriðja og svo framvegis. Þetta gerðist allt á 2-3 mínútum, svo að hún náði ekki að kólna og allt fór vel að lokum. En ég ráðlegg engum að ríða öflug straumvötn af þessu tagi, þar sem ekkert má út af bera. Það er allt annað að detta af baki í rólega bergvatnsá.

Fara í efri kantinum

Valdimar K. Jónsson:

Snemma lærði ég að umgangast vöð, því að ég ólst upp í Skaftafellssýslum. Aðalatriðið er að hafa vaðið fyrir neðan sig eins og máltækið segir, missa hestinn ekki undan straumi yfir í brotin, fara heldur í efri kantinum út í ána. Segja má, að reglurnar séu svipaðar og þær, sem við notum, þegar við förum vöð á bíl, en hestar hafa þó tilhneigingu til að víkja undan straumi og missa þannig vaðið. Ef mikið er í, má ekki vaða beint yfir, heldur kanna vaðið fyrst og gefa sér tíma til að finna réttu leiðina. Þá þarf bæði að gæta að grýttum botni og hugsanlegum sandbleytum.

Einu sinni lenti ég við annan mann í lúmskri sandbleytu í Múlakvísl. Ég hefði átt að snúa við, en hélt, að þetta væri örstutt og braust áfram. Bleytan versnaði hins vegar og að lokum stóðum við fastir. Við gátum varað ferðafélaga okkar við, fórum af baki og hestarnir brutust um. Með hvatningu gátum við látið þá berjast áfram með hvíldum á milli. Ég var orðinn skelkaður, en að lokum komumst við yfir bleytuna og þá var ég feginn. Það er af svona reynslu, sem maður lærir.

Annað sinn vorum við átta saman á leið um Emstrur frá Þórsmörk til Hvanngils. Emstruá var ekki árennileg, svo að við fórum upp með henni, þangað til við komum að vaði fjallabíla. Þar kannaði ég vaðið á gráum vatnahesti traustum, sem ég notaði mikið við erfiðar aðstæður. Ég bað fólk að fara varlega í halarófu og halda vaðinu með því að beita hestinum í strauminn. Þá er mikilvægt að hafa augu á föstum kennileitum í landi, en horfa ekki mikið í vatnið, því að það truflar jafnvægisskynið. Kunningi minni fór næstum flatt á þessu og hélt ekki vaðinu. Ég var orðinn hræddur um hann, en þá stanzaði hann, áttaði sig og breytti stefnunni og lét feta í land.

Í sumar varð ég eitt andartak hræddur um ferðafélaga minn á sandinum undan austurjaðri Mýrdalsjökuls í einni Þverkvíslanna. Ég hafði valið vað og sneri við til að fylgjast með hópnum fara yfir. Einn af þeim síðustu fór ekki í spor hinna, heldur neðar. Það skipti engum togum, að maður og hestur fóru á bólakaf í jökulvatnið, svo að eitt andartak sást hvorki tangur né tetur. Báðir komu þó í ljós aftur og bröltu á land. Reiðmaðurinn þurfti síðan að ríða rennblautur í hryssingi nærri dagleið um Hafursey í Kerlingadal, en bar sig þó vel, þegar yrt var á hann.

Vanir vatnahestar
hafa vit fyrir manni

Einar Bollason:

Á vöðum verða menn að gæta þess að ríða ekki út í lygnur, þar sem sandbleyta kann að vera undir. Menn ríða yfirleitt á broti. Séu vöð breytileg, er mikilvægt, að vanur maður á vönum vatnahesti taki að sér að leita að vaði og velja það, meðan hinir bíða. Þetta getur þýtt, að vaðmaðurinn þurfi að skipta um hest til að geta verið á hesti, sem hefur vit á að stanza, ef hann finnur, að leiðin er ófær. Mikilvægt er að sá, sem fer næstur á eftir vaðmanni, stimpli nákvæmlega inn, hvernig vaðið liggur. Síðan þarf hver maður í lestinni að gæta þess að beita hestinum aðeins upp í strauminn, eftir því hvað hann er hraður. Að lokum verður fólk að gleyma áhyggjum af að vökna, meira máli skiptir að, það sé ekki valt á hestinum.

Vanir vatnahestar geta haft vit fyrir mönnum. Einu sinni vorum við Jón í Eyvindarmúla á leið austur að Hunkubökkum með hópi fólks. Við tveir fórum að kanna vað yfir eina af kvíslum Skaftár, þegar við komum að henni í hlaupi. Jón var á Hrímni sínum og ég á Punkti, hvort tveggja öflugir vatnahestar. Þegar við vorum komnir út í miðjan ál, stönzuðu klárarnir skyndilega. Við hvöttum þá áfram, en þér létu sér ekki segjast. Við Jón ákváðum að láta hestana hafa vit fyrir okkur og snérum því við. Kusum heldur að taka 40 kílómetra krók niður á brú. Oft er krókur betri en kelda.

Ég man eftir að hafa komið að Svörtukvísl í miklum leysingum. Ég fór að kanna vaðið á Fífli, fremur örum klár, sem ekki er neinn sérstakur vatnahestur. Vatnið náði á miðjar síður, hesturinn hrasaði og ætlaði að brjótast yfir með látum. Við það valt hann í ánni og ég lenti undir honum. Báðir svömluðum við í land, ég ekki fyrr en straumurinn hafði velt mér þrisvar um koll. Ég reyndist hafa öklabrotnað þegar ég lenti undir hestinum, sem byltist um. Eftir þetta atvik er ég alltaf með hnút í maganum, þegar ég fer yfir erfiða jökulá. Áður hugsaði ég ekki um hættuna af slíkum ám, en hef farið gætilegar síðan. Það gerir minna til að falla af baki á stöðum eins og Löngufjörum, þar sem er lítill straumur.

Jónas Kristjánsson skráði

Eiðfaxi 5.tbl. 2003