Völdin færast austur

Punktar

Thomas Fuller telur í dag í International Herald Tribune, að völd og áhrif í Evrópusambandinu séu að færast frá Bretlandi til Þýzkalands. Brezka stjórnin hefur frestað þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að evrunni, af því að brezku skrílblöðin berjast af hörku gegn henni. Hann segir frestunina fela í sér eins konar aukaaðild Bretlands á jaðri sambandsins. Á sama tíma sé stjórnarskrárnefnd Evrópusambandsins undir forsæti Valery Giscard d’Estaing að ná samkomulagi um breytt vægi atkvæða, sem tekur aukið tillit til fjölmennis Þýzkalands. Í þriðja lagi séu Pólland og nýju aðildarríki bandalagsins í Austur-Evrópu í nánu efnahags- og viðskiptasambandi við Þýzkaland, en ekki Bretland. Þetta eru slæmar fréttir fyrir einræðishneigða ráðamenn Bandaríkjanna, sem er mjög uppsigað við Þýzkaland eftir stríðið gegn Írak.