Von í viðbúnaði.

Greinar

Viðbúnaður gegn eiturefnum er ekki eins öflugur og hann ætti að vera. Þeir, sem fjalla um fíkniefni af opinberri hálfu, gera að vísu sitt bezta. En aðstaða þeirra er að mörgu leyti lakari en hún ætti að vera og mun lakari en sérstaða landsins gefur tilefni til.

Í sumum nágrannalandanna hafa stjórnvöld meira eða minna gefizt upp fyrir eiturefnum. Kunnasta dæmið er Holland, þar sem sjúklingum er gefið eitur, svo að þeir þurfi ekki að stunda glæpi til að komast yfir það á svörtum markaði, sem blómstrar þar í landi.

Hér hagar svo til, að landamæri eru engin. Eiturefni koma annaðhvort í flugvélum til Keflavíkurvallar eða með skipum til hafna landsins. Þótt þessir innflutningsstaðir séu margir, eru þeir þó miklu færri en í öðrum löndum. Við þurfum því ekki að gefast upp.

Að vísu eru tækifærin til smygls svo mikil hér á landi, að framboð er talið vera töluvert af hassi og öðrum útbreiddum eiturefnum. Verðlag á svörtum markaði er þó miklu hærra en í nágrannalöndunum og bendir það til, að mun erfiðara sé að koma efnunum í sölu hér.

Það styður þessa skoðun, að þeir, sem fjalla um vandamál Hlemmtorgsunglinga, telja, að þeir noti meira af alls kyns lyfjum af lyfseðlum: af geðlyfjum, róandi lyfjum, svefnlyfjum og megrunarlyfjum. Þetta bendir til, að innflutt eiturlyf séu í samkeppni við innlend.

Í leiðara DV á laugardaginn var lagt til, að fleiri lyf yrðu gerð eftirritunarskyld, svo að auðveldara væri að fylgjast með, hvaða læknar ávísa þessum lyfjum til hvaða fólks. Ennfremur, að gengið yrði hraðar og harðar fram í að stöðva lækna og loka fyrir þá.

Þetta er verkefni heilbrigðisráðuneytisins og landlæknis. Svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki tekið lyfjaneyzluna nógu alvarlega og haldi hana vera minni þátt í eiturnotkun þjóðarinnar en hún er í raun og veru. Þessir aðilar þurfa að herða ráð sitt.

Sérfræðingar telja, að fastaneytendur innfluttra eiturefna séu tiltölulega fáir. Margir snerti á þessu, en hinn harði kjarni sé ekki stór. Þess vegna er rétt hjá fíkniefnalöggæzlunni að einbeita sér að stríði við innflutning og heildsölu, sem hún gerir, fremur en að eltast við neytendur.

Aðgerðir gegn innflutningi og heildsölu hljóta að sjálfsögðu að reynast markvissari en aðrar, enda er meira magn í húfi í hverju tilviki. Þannig nýtist mannafli og fjármagn fíkniefnalöggæzlunnar betur en ella. Segja má líka, að verulegur árangur hafi náðst.

Hins vegar má margt bæta. Þeir, sem fengið hafa sérstaka þjálfun í þessu, eru horfnir til betur launaðra starfa. Þeir, sem nú starfa í þessu, fá ekki næg tækifæri til að stunda námskeið og fara í kynnisferðir til staða, þar sem ástandið er alvarlegra.

Lagfæringar kosta auðvitað meira fé en nú er varið til varna. En stjórnvöld verða líka að átta sig á, að mikið er í húfi. Ísland hefur farið betur út úr vandanum en nágrannaþjóðirnar. Við búum við von um, að einangrun og viðbúnaður valdi því, að svo megi vera.

Unglingar nútímans eru ekki lakari en unglingar fyrri tíma. Meðal þeirra vex þeirri skoðun fylgi, að heilsan sé of mikils virði til að fórna henni í eitur. Ef viðbúnaðurinn heldur vandamálinu í skefjum, meðan heilbrigð skynsemi breiðist út, er fyrirhöfnin ekki fyrir gýg.

Jónas Kristjánsson.

DV