Guðni Ágústsson:
Sendiherra eða umboðsmaður íslenzka hestsins er samstarfsverkefni þriggja ráðuneyta, landbúnaðarráðuneytisins, utanríkisráðuneytisins og samgönguráðuneytisins. Flugleiðir og Búnaðarbankinn koma einnig að verkefninu sem styrktaraðilar.
Hlutverk sendiherrans er að halda fram forustuhlutverki Íslands sem upprunalands íslenzka hestsins og höfuðlands kynbóta, ræktunar og fagmennsku í hestamennsku. Sendiherrann á að hafa samstarf við sendiráð og ræðismannsskrifstofur Íslands um allan heim, svo að þessir aðilar geti gefið sem beztar upplýsingar um íslenzka hestinn.
Markmiðið er að efla jákvæða ímynd hrossaræktar og hestamennsku og auka sölu á íslenzka hestinum og hestatengdri vöru og þjónustu innanlands og utan. Sendiherrann á að taka þátt í sýningum, ráðstefnum, kaupstefnum og almennri landkynningu. Hann fær hagsmunaaðila til að taka sameiginlega þátt í slíkum viðburðum.
Einnig á hann að vera í góðu sambandi við íslenzka hestamenn og félagskerfi þeirra hér heima og erlendis. Ennfremur er æskilegt, að hann efli áhuga á hestamennsku innanlands með fræðslu og kynningu í skólum.
Umboðsmaðurinn er hugsaður sem mikilvægur upplýsingagjafi og sterkt sameiningarafl og raunar talsmaður íslenzkra hestamanna. Ég bind miklar vonir við þetta embætti og vona að sterkur maður finnist til að gegna hlutverkinu með sóma.
Sitt sýnist hverjum um sendiherrann
Gunnar Arnarson hrossaútflytjandi:
Þetta er vafalaust vel meint, en um leið mjög tvíbent. Ég set allt í bremsu, þegar ég heyri svona hugmyndir. Ég sé fyrir mér einhvern kall, sem fer um allt og svo gerist ekki neitt. Við erum með alls konar stofnanir í hestamennskunni og þetta er ein silkihúfan ofan á hinar. Við höfum þegar Hestamiðstöð, Átaksverkefni og Heiðursvörð. Ég sé ekki fyrir mér, að þetta fyrirhugaða embætti virki. Það kallar á gríðarlega þekkingu viðkomandi manns. Ég efast um, að til séu framsóknarmenn í þetta allt saman. Við eigum þegar marga öfluga sendiherra íslenzka hestsins í útlöndum. Þar gilda vinnubrögðin maður á mann. Í stórum dráttum ætti ríkisvaldið að láta okkur sem mest í friði. Peningar eru því aðeins vel þegnir, að sjá megi fyrir, að eitthvert gagn verði að þeim, annars gera þeir illt verra.
Hróðmar Bjarnason í Eldhestum:
Allt slíkt framtak er gott, sem kynnir íslenzka hestinn. Hins vegar er ekki sama, hvernig þetta er útfært og hver gerir það. Ég sé fyrir mér, að umboðsmaðurinn sjái um að framleiða fyrsta flokks kynningarefni til notkunar erlendis og sjái um, að það sé sem víðast sýnilegt, til dæmis í hestatímaritum á erlendum tungumálum. Svo þarf hann að vera mjög virkur á netinu. Hann getur líka styrkt aðild Íslendinga að kaupstefnum og sýningum erlendis á þessu sviði, svo að þátttaka Íslendinga í sýningunum sé til mikils sóma. Mikilvægt er líka, að hann sé hlutlaus aðili, sem allir geta sætt sig við. Og það getur reynzt erfitt að finna slíkan mann, því að landið er lítið og ágreiningsefnin mörg.
Jón Albert Sigurbjörnsson formaður LH:
Ég vil ekki loka á þessa hugmynd, en ég vil skoða hana mjög vel og sjá betur, hvaða útfærslur koma til greina. Mér hugnast illa, að alltaf er verið að finna upp nýjar stofnanir í stað þess að efla það starf, sem fyrir er. Mér finnst heldur ekki gott, ef þessi nýja ríkisstofnun fer í samkeppni við frjálsu félögin um styrktaraðila. Svo finnst mér, að skilgreina þurfi markaðsmál á víðum grundvelli.
Unglingstarf er markaðsmál og reiðvegir eru markaðsmál, svo að dæmi séu tekin. Það er ekki bara markaðsmál að selja hestinn. Ég legg líka áherzlu á, að enginn einn maður hefur yfirsýn yfir allt sviðið. Sem dæmi má nefna, að hér hjá landssambandinu erum við með sérfræðinga á ýmsum sviðum samskipta við útlönd. Að lokum legg ég áherzlu á, að einingum sé fækkað í hrossageiranum, svo að starfið verði sem skilvirkast.
Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:
Ég held, að við getum haft mikið gagn af þessum aðila. Hestamennskuna vantar sérstakan mann í ýmis verkefni, svo sem að hafa forustu um aðild hagsmunaaðila að kaupstefnum í útlöndum og hafa forgöngu um að koma greininni á framfæri í fjölmiðlum. Auðvitað fer þetta mikið eftir manninum, sem verður fyrir valinu. Hann þarf að hafa vit á hrossum og vera vel menntaður og vel máli farinn á ýmsum tungumálum. Þetta þarf að vera Gunnar Bjarnason nútímans.
Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003.