Ferðaskrifstofa ráðherra gerir víðreist um þessar mundir og leitar sambanda í ýmsum afkimum jarðarinnar. Einkum verða fyrir valinu lönd á borð við Mexíkó, Malasíu og Mósambík, þar sem stjórnarfar er frumstætt, spilling mikil og efnahagur á undanhaldi.
Þótt við getum aldrei ræktað nógu vel allt of stóra markaði okkar í Vestur-Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, þar sem menn eru borgunarmenn fyrir skuldum sínum, er sífellt verið að leita nýrra markaða á furðulegustu stöðum, þar sem enginn borgar neitt.
Helzti túristinn í hópi ráðherranna var heppinn í fyrra, þegar frestað var opinberri heimsókn hans til mesta stórþjófs aldarinnar næst á eftir Markosi sáluga á Filippseyjum. Í millitíðinni var Súhartó velt úr sessi í Indónesíu og ráðherrann hætti þá við ferðina.
Í staðinn hefur hann beint augum sínum til Mósambík, sem er einhvers staðar afskekkt í Afríku og alveg á kúpunni. Þar vill hann opna sendiráð í sameiginlegu húsnæði Norðurlanda og senda þangað diplómat, væntanlega til að selja þangað íslenzka lúxusvöru.
Íslenzkar afurðir eru svo dýrar og eiga að vera svo dýrar, að ekki hafi aðrir efni á að kaupa þær en Evrópumenn, Bandaríkjamenn og Japanir. Að öðrum kosti hrynur útflutningsverðlagið og kreppa heldur innreið sína hér eins og í ferðalöndum ráðherranna.
Ef opna þyrfti sendiráð í Afríku, sem samanlögð hefur ekki nema 1% heimsviðskiptanna, væri eðlilegra að gera það í fjölmennum ríkjum á borð við Egyptaland eða Suður-Afríku heldur en í afskekktum og týndum ríkjum á borð við Mósambík, Malaví eða Malí.
Ráðherrar feta einnig í fótspor forseta Íslands, sem löngum hefur ræktað samskipti við röð glæpamanna, sem hafa áratugum saman ráðið Mexíkó í skjóli umfangsmikillar spillingar og ofbeldisverka. Forsetinn og ráðherrar hvetja til fjárfestingar á þessum stað.
Er menn taka áhættu af löndum á borð við Kína, Víetnam eða Mexíkó, þar sem íbúar eiga óuppgerðar sakir við stjórnvöld, er hætt við, að fjárfestingar í spillingu fari fyrir lítið, þegar byltingin kemur. Þannig gufuðu verðmæti upp í byltingunni í Indónesíu.
Nú er ráðherra á leið til Malasíu, þar sem er við völd Mahatir bin Mohamad, er hefur það að sérstökum áhugamálum að saka Vesturlönd um allt, sem aflaga fer í landinu, og að saka pólitíska andstæðinga ranglega um að þröngva samræði upp á aðra karlmenn.
Vafalaust fær íslenzki ráðherrann að frétta margt af vonzku Vesturlanda og óbeizlaðri kynhneigð óþægra stjórnmálamanna. Hitt verður að draga í efa, að fjárfestingar borgi sig í landi, þar sem ráðamenn telja sig geta fryst þær fyrirvaralaust eftir hentugleikum.
Svo ruglaðir eru túristar ríkisins orðnir af umgengni við vafasama pappíra á afskekktum stöðum, að utanríkisráðherra lét sér detta í hug að láta gamlan kollega og Malaví-fara í sendiráðinu í Washington hafa bréfleg áhrif á dómara í þágu Eimskips.
Dómarinn endursendi auðvitað bréfið ólesið og sagðist ekki mega vera að því að standa í bréfaskiptum við menn úti í bæ meðan hann væri að dæma í málum. Þannig hefur ráðherra okkar réttilega verið stimplaður sem þriðja heims ráðherra í Malasíu-stíl.
Bréfið til bandaríska dómarans sýnir, að nú þarf að stöðva túrisma íslenzkra ráðherra á fjarlægum stöðum, þar sem vondur félagsskapur er á hverju strái.
Jónas Kristjánsson
DV