Vondur, verri, verstur

Punktar

Ísrael og Pakistan eiga gereyðingarvopn og eru hættulegri umhverfi sínu en Írak, en þau eru skjólstæðingar Bandaríkjanna og munu því ekki sæta vestrænni árás. Leiða má rök að því, að Saddam Hussein sé hættulegri eigin þjóð en nokkur annar harðstjóri heimsins og því sé rétt að ryðja honum úr vegi. Það væri trúverðugri kenning, ef hún væri hluti heildarmyndar, þar sem í framhaldinu væri gert ráð fyrir að hrekja harðstjórana í Pakistan, Indónesíu, Úsbekistan og fleiri skjólstæðinga Bandaríkjanna frá völdum. Svo er ekki. Við höfum heldur enga tryggingu fyrir því, að einhver af yfirföntum Saddam Hussein verði ekki gerður að lepp Bandaríkjamanna í stríðslok, samanber grein eftir >Bill Keller í New York Times í gær. Hræsnin er svo augljós, að ekki er rúm fyrir neitt traust á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.