Vonlaust framboð

Greinar

Baráttan fyrir íslenzku sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010 hefur aðeins einn kost. Hún hefur næstum þrefaldað framlög Íslands til þróunaraðstoðar upp í 0,2% landsframleiðslunnar. Þetta var veik og nízk aðferð til að afla framboðinu fylgis hjá ríkjum þriðja heimsins.

Þriðji heimurinn veit hins vegar, að Sameinuðu þjóðirnar gera ráð fyrir, að ríkar þjóðir leggi ekki 0,2%, heldur 0,7% landsframleiðslunnar til þróunaraðstoðar. Þess vegna áttu Norðmenn auðvelt með að komast í ráðið, af því að þeir standa sína pligt. Við erum hins vegar langt frá markinu.

Við skulum gera okkur grein fyrir, að keppinautar Íslands um sætið dreifa til ráðamanna í þriðja heiminum upplýsingum um, hversu andstætt Ísland er þróunarlöndunum, þegar kemur að greiðslum. Það er vonlaust að fara með 0,2% þróunaraðstoð í framboð, sem þarf að sækja fylgi til margra þróunarlanda.

Við skulum líka gera okkur grein fyrir, að Ísland hefur verið stimplað sem fylgiríki Bandaríkjanna, yfirlýstur stuðningsaðili við stríð, sem logið var upp á okkur. Það er vonlaust fyrir Ísland að keppa við Austurríki og Tyrkland, sem ekki bera slíkan glæp á bakinu í kosningabaráttunni.

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur þetta vonlausa framboð til Öryggisráðsins munu kosta okkur um eða tæpan milljarð króna. Morgunblaðið telur það hóflega áætlað, en Halldór Ásgrímsson segir töluna lægri. Við þekkjum Halldór og vitum að hann er að blekkja okkur.

Halldór Ásgrímsson hefur þegar eytt skattfé stjórnlaust til að taka upp stjórnmálasamband við fjörutíu ríki og koma upp sendiráðum á ýmsum stöðum, þar sem engir aðrir hagsmunir eru í húfi aðrir en þeir að reyna að fá viðkomandi ríki til að lofa stuðningi við framboð. Allt þetta fé verður talið með.

Keypt loforð halda ekki. Já þýðir ekki endilega já í þriðja heiminum, heldur kannski. Ekki sést, hvaða ríki bregðast stuðningi í leynilegri atkvæðagreiðslu, þegar á hólminn kemur árið 2008. Í greinargerð utanríkisráðuneytisins frá 2002 er talið, að 25-30 ríki muni bregðast gefnu loforði.

Ísland getur aldrei unnið upp forskot keppinautanna, þótt ráðnir verði tugir sendimanna til að reyna að kaupa fylgi fátækra ríkja með yfirlýsingum um stuðning við áhugamál viðkomandi ríkis. Ísland breytist í hóru, sem styður hvað sem er, í veikri von um stuðning í atkvæðagreiðslu 2008.

Halldór Ásgrímsson kom okkur í þennan dýra vanda, sem fer í nokkra milljarða, þegar spennan æsist. Rétti tíminn til að hætta við vonlaust framboð stórmennskuæðis er: Nú þegar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið