Vont veður er sumpart gott.

Greinar

Þegar láglendi verður alhvítt um mikinn hluta landsins og heiðar verða ófærar eða illfærar í byrjun maí, er eðlilegt, að margir hugsi til suðrænna stranda og láti sig dreyma um að dveljast þar í sólskini og blíðu.

Þegar hvassir vindar blása dægrum og jafnvel dögum saman í byrjun maí, er eðlilegt, að margir hugsi til suðrænna skóga og láti sig dreyma um þýðar golur og öflugan gróður, þar sem jarðarberin eru þegar orðin þroskuð.

Sem betur fer hafa margir Íslendingar efni á að veita sér veðursælu paradísar í tvær-þrjár vikur á fárra ára fresti og sumir jafnvel á hverju ári. Þetta er vel þegið hlé á sleitulausri menningar-og lífsbaráttu hér norður í höfum.

En paradís ferðamannsins þarf ekki nauðsynlega að vera paradís heimamannsins. Við Miðjarðarhafið eru lífskjör mun síðri en hér og raunar þeim mun lakari, sem nær dregur miðbaug. Það er ekki allt fengið með gróðursæld og sólarblíðu.

Hitinn lamar athafnavilja og starfsgetu, ekki bara dag eftir dag og ár eftir ár, heldur kynslóð eftir kynslóð. Miðjarðarhafsbúar geta verið dag að koma því í verk, sem Íslendingar eru vanir að afgreiða á stundarfjórðungi.

Forfeður okkar fórnuðu ættartengslum og heimahefðum, þegar þeir fóru yfir úfið haf til fjarlægs lands, sem bauð upp á síðri skilyrði til kornræktar en voru heima fyrir. Þetta getur ekki hafa verið auðveld ákvörðun.

Hingað komnir öfluðu þeir sér menningar, sem bar langt af fyrri heimahögum. Þeir hófu ritlist til vegs, bæði í skáldverkum og sagnfræði. Þessi sérstaða hefur risið og dalað á ellefu öldum og er enn merkjanleg.

Þeir, sem ekki skrifa bækur, stunda tónlist, myndlist eða leiklist. Það eru ekki margar borgir í heiminum, sem bjóða upp á 70 málverkasýningar á aðeins einu ári.

Að baki verklegrar og andlegrar menningar Íslendinga stendur óblíð náttúra, er heldur okkur sífellt við efnið, þegar við viljum slaka á. Allt er hér stöðugum breytingum undirorpið, meira að segja loftþrýstingurinn.

Með þessu er ekki sagt, að bezt sé að hafa sem verst og breytilegust skilyrði frá hendi móður jarðar. Norrænir menn urðu að sætta sig við hrun landnáms í Grænlandi, af því að þar fóru hin ytri skilyrði niður fyrir það, sem þeir réðu við.

Forvitnilegt er þó, að þar eins og hér neituðu þeir að falla inn í náttúruna og héldu áfram að haga sér eins og heimsborgarar fram í rauðan dauðann. Í gröfum þeirra hafa klæðin reynzt vera í samræmi við nýjustu Parísartízku þess tíma.

Líklegt má telja, að hæfilega harðskeytt náttúra, samfara hæfilegri þrjózku gegn því að lagast að þessari náttúru, veiti mönnum og þjóðum aðhald eða áskorun til að rísa upp í óvenjulegu framtaki, verklegu og andlegu.

Suðurgöngur okkar eru margfalt öflugri en þær voru á tímum Guðríðar Þorbjarnardóttur eða Jóns Indíafara. Íslendingar nútímans sætta sig ekki við náttúru heimalandsins. En þeir koma yfirleitt allir til baka norður í garrann.

Við erum líka þolinmóð, þótt sumarið ætli seint að koma að þessu sinni. En auðvitað mundum við taka því með fögnuði, ef vind tæki nú að lægja, sól að skína og snjó að renna. Af því að síðan er skammt í næsta vetur.

Jónas Kristjánsson

DV