Yfirmönnum bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli ber augljós skylda til að sjá um, að löggæzlumenn þeirra virði samninga Íslands og Bandaríkjanna um herstöðina. Fræðsla í þeim efnum á að vera grundvallaratriði þjálfunarinnar.
Blátt áfram er furðulegt, að þar syðra skuli vera skipað til starfa löggæzlumönnum, sem hafa annaðhvort ekki hugmynd um svæðisbundin takmörk lögsögunnar eða telja sig geta komizt upp með að virða ekki þessi takmörk.
Ef bandarískir herlögreglumenn á Keflavíkurflugvelli ímynda sér, að skotið sé á þá úr launsátri utan flugvallarsvæðisins, eiga þeir að snúa sér til íslenzkra lögregluyfirvalda, sem meðal annars hafa lögsögu á þjóðvegum landsins.
Þegar bandarískir hermenn gera vopnaðan aðsúg að íslenzkum borgurum á alfaraleið, er skörin farin að færast upp í bekkinn. Þá er kominn tími til að gera strangar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hliðstæð atvik í framtíðinni.
Því miður hafa viðbrögð varnarmáladeildar og utanríkisráðherra verið með hinum hefðbundna undirlægjuhætti gagnvart herliðinu syðra. Málið hefur aðeins verið tekið til rannsóknar og sennilega síðari tíma svæfingar.
Auðvitað átti utanríkisráðherra umsvifalaust að kalla flotaforingjann á sinn fund og veita honum þungar ákúrur. Hann átti jafnframt að gera kröfur um réttarhöld yfir hinum byssuglöðu mönnum og allri keðju yfirmanna þeirra.
Finna þarf, hvar bresturinn er. Brutu bandarísku herlögreglumennirnir samning, sem þeir vissu um? Eða hafði einhverjum ofar í kerfinu láðst að fræða þá um nauðsynleg smáatriði í viðskiptum við sjálfstætt ríki?
Með ræfildómi sínum í máli þessu eru íslenzk stjórnvöld beinlínis að hvetja bandaríska flotaforingja á Keflavíkurflugvelli til að leyfa undirmönnum sínum að fara sínu fram og haga sér eins og þeim þóknast hverju sinni.
Dæmigerð eru viðbrögð Perry Bishop, blaðafulltrúa herliðsins: “Við töldum ástandið mjög alvarlegt”. Það er bara ekkert hans mál að meta, hvenær ímyndanir skjólstæðinga hans komast á það stig, að þeir megi taka að sér íslenzka lögsögu.
Ennfremur kennir þetta dæmi okkur, að við þurfum að koma lögsögu íslenzkra dómstóla yfir afbrot bandarískra hermanna utan Keflavíkurflugvallar. Hún gerir það ekki nú og það auðveldar yfirgang af bandarískri hálfu.
Svokallaðan “varnarsamning” þarf að endurskoða í ótal atriðum. Lögsaga dómstóla er eitt þeirra.
Freisting á ferð.
Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að fyrirframgreiðsla tekjuskatta þurfi á þessu ári að vera 62% af álögðum gjöldum síðasta árs til að skattbyrði manna verði jöfn báða hluta ársins. þetta er hin rétta viðmiðun.
En stofnunin hefur líka spáð, að fyrirframgreiðslan þurfi að vera 66% til að hið opinbera fái jafnar tekjur báða hluta ársins. Slík viðmiðun væri út í hött, því að samkvæmt verðbólgu ættu útgjöld ríkisins að vera meiri síðari hlutann.
Hér er vakin athygli á þessu, ef það gæti stuðlað að því, að stjórnvöld freistuðust síður til að skattpína borgara landsins umfram tekjuaukningu þeirra milli fyrri hluta þessara tveggja ára.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið