Kominn er tími til að snúa vörn í sókn í tilveru þjóðarinnar. Við þurfum að öðlast markmið að nýju og kjark til að sækja fram til þeirra. Við þurfum að breyta láglaunasvæði vonleysis í hálaunasvæði tækifæranna. Við þurfum að hætta við að gefast upp í lífsbaráttunni.
Mjög margir muna enn fyrri blómaskeið í sögu aldarinnar, til dæmis það, sem var fram eftir nærri öllum sjöunda áratugnum. Þá hrundu hlekkir íhaldskurfanna af þjóðinni og hún sótti fram á öllum sviðum. Peningavelta jókst ár frá ári og fólk sá tækifærin blasa við.
Á þeim árum datt fólki, sem menntaði sig, ekki annað í hug en að þörf væri fyrir menntun þess og að greitt yrði fyrir hana. Atvinnuleysi og lág laun var eitthvað, sem fólk hafði lesið um í sjálfsævisögum, að hefði einkennt landið á fjarlægum kreppuárum fyrir stríð.
Allt frá dögum Hannesar Hafstein lét þjóðin sig ekki muna um að ráðast í stórvirki. Stórfljót voru fyrst brúuð og síðan virkjuð fyrir morð fjár á þeirra tíma mælikvarða. Reistir voru hátimbraðir skólar um allt land. Nýjasta tækni hélt innreið í gamla atvinnuvegi.
Ekki er heill áratugur síðan enn eimdi af þessu framfaraæði. Þjóðin var orðin vel menntuð og var að því leyti undir það búin að taka við atvinnuvegum framtíðarinnar. En hún þekkti ekki sinn vitjunartíma og lagðist í þess stað í misheppnaða loðdýra- og laxarækt.
Undir forustu stjórnmálamanna og fyrrverandi stjórnmálamanna í peningastofnunum var komið á skefjalausu rugli, sem leiðir til þess, að verðmætum þjóðarinnar er sóað í margvíslega fyrirgreiðslu til gæludýra, sem ekki geta ávaxtað það pund, sem þeim er trúað fyrir.
Á sama tíma hætti þjóðin að telja sig hafa efni á því, sem þótti sjálfsagt áður. Hún hætti að borga vísindamönnum mannsæmandi laun. Hún átti í mesta basli við að koma yfir sig þjóðarbókhlöðu og virðist ófær um að vinna ný stórvirki á slíkum sviðum eða öðrum.
Á sama tíma er þjóðin í vaxandi mæli að verða leiksoppur draumóra um happdrættisvinninga, til dæmis þann, að útlendingar komi hingað og reisi verksmiðjur, helzt álver, nú síðast Kínverjar. Heilu stjórnmálaforingjarnir byggðu feril sinn á sölu slíkra draumóra.
Liðin er sú tíð, að unga fólkið telji Ísland vera land tækifæranna. Menn fara í langt nám, en efast um, að nokkur vilji nota það. Menn eru hættir að byggja hús, af því að þeir telja sig ekki geta selt þau. Menn eru að laga sig að stöðnun varanlegs láglaunaþjóðfélags.
Auðvitað þarf almenningur að verða ríkur í þessu landi, eins og hann varð til dæmis í Bandaríkjunum. Það er nauðsynlegt, svo að hringrás komist í peningakerfið og kaupendur fáist að vörum og þjónustu. Þegar allir hörfa inn í skel, hægir á hjólum tilverunnar.
Svo virðist sem hugarástand íhaldskurfa hafi breiðzt út meðal þjóðarinnar. Kjósendur vilja helzt treysta þeim, sem engu vilja breyta og ekkert gera, heldur láta áfram reka á undanhaldinu í átt til sífellt lakari lífskjara og meira atvinnuleysis og aukins niðurskurðar réttlætis.
Þjóðin áttar sig vonandi á þessu, þegar í svo mikið óefni er komið, að það er orðið augljóst. Kannski viljum við allt í einu fara að taka í alvöru þátt í evrópsku og alþjóðlegu samstarfi um efnahagslega framþróun og kannski förum við að innleiða atvinnuvegi framtíðar.
Þjóðin er enn vel menntuð og hlýtur einhvers staðar að búa enn yfir gömlum neista hugmynda, átaka og áræðis. Nú er kominn tími til að snúa vörn í sókn.
Jónas Kristjánsson
DV