Loksins hefur bilað teflon-húðin á ríkisstjórninni og höfuðflokki hennar, Sjálfstæðisflokknum. Í fyrsta sinn á kjörtímabilinu hefur stjórnin ekki meirihlutafylgi í skoðanakönnun og í fyrsta sinn tekur Sjálfstæðisflokkurinn þátt í langvinnu fylgistjóni Framsóknarflokksins.
Líklega hefur þúfa öryrkja velt þessu þunga hlassi. Forsætisráðherra hefur teflt sér í þá stöðu að hafa í tvígang gert þá að höfuðandstæðingum sínum og orðið að beita stöðu sinni sem sjálfskipaður yfir-hæstiréttur til að veikja áhrif dómsúrskurðar í þágu samtaka öryrkja.
Forsætisráðherra gerðist áður yfir-hæstiréttur í gjafakvótamálinu. Samkvæmt skoðanakönnunum var meirihluti þjóðarinnar á öðru máli en hann, án þess að hann biði álitshnekki af málinu. Líklega er ofbeldi við öryrkjabandalag eitt af því, sem “maður gerir ekki”.
Forsætisráðherra og ríkisstjórn hans er vorkunn. Þegar menn haga sér hvað eftir annað á þann veg, að ekki þætti erlendis sæma valdamönnum, án þess að þjóðin bregði sér hið minnsta, er engin furða, þótt þeir komist smám saman á þá skoðun, að þeim séu allir vegir færir.
Ríkisstjórnarflokkarnir standa gegn því, að fjárreiður íslenzkra stjórnmála verði gegnsæjar eins og í nágrannalöndum okkur beggja vegna Atlantshafs. Ekki hefur borið á, að kjósendur hafi neinar minnstu áhyggjur af þessari sérstöðu, sem hefur þegar boðið hættunum heim.
Utanríkisráðherra varði flokkspólitíska ráðningu í stöðu forstjóra Leifsstöðvar með því, að lögmaður ráðuneytisins væri sér sammála, rétt eins og dæmdur sakborningur segði verjanda sinn vera sér sammála. Ekki virtist þjóðin hafa miklar áhyggjur af þessu.
Umhverfisráðherra hefur oftar en einu sinni stælt forsætisráðherra, ekki sem yfir-hæstiréttur, heldur sem yfir-náttúruvísindamaður þjóðarinnar. Hún veit, að erfðabreytt matvæli eru ekki hættuleg, og hún veit, að sjókvíalax veldur engum skaða á umhverfi sínu.
Í báðum þessum tilvikum er til fullt af erlendum rannsóknum, sem benda til, að erfðabreytt matvæli geti verið hættuleg og að sjókvíalax sé hættulegur umhverfinu. En hún er svo mikill vísindamaður, að hún veit betur, án þess að þjóðin heimti, að hún hrökklist frá völdum.
Sérhvert dæmanna, sem hér hafa verið rakin, mundu duga til að koma ráðherrum frá í nágrannalöndum okkar beggja vegna Atlantshafs. En hér á landi hafa kjósendur ekki tekið slík mál alvarlega, ef marka má skoðanakannanir. Það er fyrst núna, að hriktir í stjórnarfylginu.
Ekki er ástæða til að draga of víðtækar ályktanir af fylgistjóni ríkisstjórnarinnar og forustuflokks hennar í nýjustu skoðanakönnuninni. Þetta er bara aðvörun. Fylgismenn stjórnmálaflokka hafa skriðið til föðurhúsanna á styttri tíma en lifir til næstu alþingiskosninga.
Ekki er heldur ástæða til of mikillar bjartsýni við þær aðstæður í veraldarsýn kjósenda, að menn saka í alvöru þá fjölmiðlun um sorpblaðamennsku, sem ver ómældum tíma í að grafa upp feimnismál, en fagna hins vegar þeirri fjölmiðlun, sem lítur á stjórnmál sem boltaleik.
Hugsanlegt er, að með sinnaskiptum sínum í öryrkjamálinu hafi kjósendur stigið langþráð skref frá því að vera undirsátar og þegnar hertogans yfir í að verða sjálfstæðir borgarar á borð við engilsaxa. Sagan sýnir þó, að ástæða er til að vara við mikilli bjartsýni.
Ófullveðja kjósendur, er líta á stjórnmál sem boltaleik, fá til lengdar þá forustu, sem þeir eiga skilið, þótt flestum mislíki um tíma, að hertoginn sé yfir-hæstiréttur.
Jónas Kristjánsson
DV