Áhyggjur mögnuðust meðal framsóknarmanna beggja stjórnarflokkanna, þegar Sól fór að bera víurnar í Mjólkursamlag Borgfirðinga. Áhyggjurnar urðu að skelfingu, þegar kom í ljós, að Hagkaup gæti vel hugsað sér að kaupa helminginn af framleiðslu mjólkursamlagsins.
Framsóknarmenn beggja stjórnarflokkanna töldu, að hlutafélög úr einkageiranum væru með þessu að trufla ríkisrekstur landbúnaðarins og gætu smám saman kollvarpað hinni friðsælu og dýru einokun búvöruiðnaðar, sem ríkið heldur uppi á kostnað bænda og neytenda.
Núverandi og fyrrverandi landbúnaðarráðherrar ríkisstjórnarinnar voru sammála um, að grípa þyrfti í taumana, áður en starfsfólk mjólkursamlagsins áttaði sig á, að tilboð úr einkageiranum gæti bjargað atvinnu þess. Skrifað var í skyndi undir ákvörðun um úreldingu.
Skipulögð úrelding er aðferð ríkis og samtaka landbúnaðarins við að draga saman seglin í landbúnaði og búvöruvinnslu. Í stað þess að leyfa markaðsöflum að ráða ferðinni og efla búvörusölu í leiðinni, er skipulagt að ofan, hvort afnema eigi þetta fyrirtæki eða hitt.
Ríkið og stofnanir landbúnaðarins skipuleggja á sama hátt, hvernig dregið skuli jafnt og þétt úr heimild bænda til að framleiða vörur. Þetta er jafnréttisaðferð, sem gerir alla fátæka eftir hlutfallareikningi og kemur í veg fyrir, að séðir bændur geti notfært sér markaðslögmálin.
Í öllum tilvikum er úrelding í landbúnaði að meira eða minna leyti framkvæmd á kostnað skattgreiðenda. Þeir leggja til peningana, sem notaðir eru til að kaupa framleiðslukvóta af bændum og til að leggja niður búvöruvinnslu á borð við Mjólkursamlag Borgfirðinga.
Ráðamenn Sólar báðu ráðherra um frest, svo að unnt væri að kanna, hvort hægt væri að sameina drykkjarvöruframleiðslu Sólar og mjólkurvöruframleiðsluna í Borgarnesi í nýju hlutafélagi, sem rekið væri í Borgarnesi. Þetta var ráðherranum óbærileg tilhugsun.
Óformlegar viðræður voru þá raunar þegar hafnar milli ráðamanna Sólar og stjórnarmanna Kaupfélags Borgfirðinga, sem rekið hefur mjólkursamlagið í Borgarnesi. Þessar viðræður höfðu verið á jákvæðum nótum, sem ýtti undir skelfinguna í landbúnaðarkerfinu.
Landbúnaðarráðherra ver gerð sína með tilvísun í formsatriði. Kaupfélagið í Borgarnesi hafi áður verið búið að óska skriflega eftir úreldingu og að hann hafi ekki skriflega fengið neina beiðni frá sama aðila um að fresta málinu, meðan hugmyndir Sólar væru kannaðar.
Starfsfólk mjólkursamlagsins í Borgarnesi verður því að deila reiði sinni yfir atvinnumissi á tvo aðila, annars vegnar á ríkisstjórn Framsóknarflokkanna tveggja og hins vegar á stjórn kaupfélagsins, sem láðist að gæta hagsmuna fólksins á örlagastundu, er tækifæri gafst.
Hér var verið að tefla um vinnslu 15-18 milljón lítra af mjólkurvörum og öðrum drykkjarvörum og atvinnu fyrir 60-80 manns. Engu hefði verið fórnað með því að skoða málið, en atvinnutækifærum í Borgarnesi var fórnað með því að rjúka í að undirrita úreldinguna.
Atvinnu Borgnesinga var hafnað til að koma í veg fyrir að ruggað yrði báti, sem smíðaður var fyrir hagsmuni yfirstéttar landbúnaðarins. Markmið íslenzka landbúnaðarkerfisins er að halda uppi hægum og vel borguðum stjórnunarstöðum utan við hret markaðslögmálanna.
Þessi yfirstétt beitti pólitískum örmum sínum í stjórnarflokknum tveimur til að koma í veg fyrir lausn, sem hún taldi geta ógnað hagsmunum sínum sem yfirstéttar.
Jónas Kristjánsson
DV