Yfirstéttarhús á undirstéttarverði

Veitingar

Frambærileg veitingahús fyrir fólk með venjuleg fjárráð eru einkum tvö á Íslandi. Hvort tveggja er í Kvosinni og færir okkur framandi matreiðslu frá fjarlægum Austurlöndum. Annað er Kínahúsið við Lækjargötu og hitt er Maru við Aðalstræti. Það fyrra færir okkur matreiðslu frá Singapúr og hið síðara frá Japan.

Fimm komust nálægt því að lenda í þessu úrvalsliði ódýrra veitingahúsa, Fiskur Gallerí í Árbæjarhverfi, Tilveran í Hafnarfirði, TexMex í Listhúsi, Jómfrúin við Lækjargötu og Menam á Selfossi. Á nútímamáli menningarverðlauna mætti segja, að þessi fimm hús hafi náð tilnefniningu, en fyrrnefndu tvö hafi fengið verðlaunin.

Kínahúsið er fyrst og fremst ódýrt eins og önnur slík hús hér á landi sem annars staðar í heiminum. Þar kostar 2000 krónur á mann að borða á kvöldin. Fyrir það færðu raunverulegan singapúr-mat, þar sem EKKI er notuð viðbrennd og allt of heit feiti, EKKI er of mikið hveiti á rækjunum og maturinn er EKKI á kafi í sósum.

Orðið EKKI er hér notað til aðgreiningar frá vondum kínastöðum borgarinnar. Undantekningarlaust eru þeir sorgleg dæmi um staði, sem hafa glatað fegurðinni í uppruna sínum og tekið upp ósiði nýja landsins, vilja sitja á tveimur stólum í senn og detta niður milli þeirra. Enginn annar Kínastaður á höfuðborgarsvæðinu er frambærilegur.

Kínahúsið er ekki gastrónómísk sæla, en þú ferð þangað, af því að þú nennir ekki að elda og vilt ekki heldur láta rýja þig inn að skinni. Maru er af allt annarri ætt, meiður af japanskri matargerðarlist, sem er númer þrjú í heiminum, næst á eftir nýfranskri og ítalskri matargerðarlist og næst á undan gamalfranskri matargerð.

Maru er ótrúlega ódýr veitingastaður. Verðlagið byggist á því, hvað þú velur marga smárétti, en raunhæft er að tala um 3000 króna verð á mann. Þú þarft að borga meira en 4000 krónur fyrir jafngóðan mat annars staðar í borginni og færð raunar hvergi jafngóðan mat utan höfuðborgarinnar. Maru er yfirstéttarhús á undirstéttarverði.

Maru er SUSHI-bar með samspili á hrísgrjónum og hráu sjávarfangi, neistandi fersku. Ef hrísgrjónin vantar, heita réttirnir SASHIMI, þunnt sneitt sjávarfang. Ef þau eru undir, heita réttirnir NIGIRI, þunnt sneitt sjávarfang á hrísgrjónabollu. Ef blandan er vafin í þangblöð, heita þeir MAKI, rúllur utan um hrísgrjón og bita af sjávarfangi.

Meginatriði matvinnslunnar er að hver biti er sérstaklega lagaður, þegar hann hefur verið pantaðar. Sushi getur bara verið ferskt, það getur ekki verið gamalt eða fryst. Þess vegna á Maru ekkert skylt við tilbúna rétti í stórmörkuðum, sem kallaðir eru sushi.

Fleira en sushi er í boði á Maru, en sushi er það, sem þú sækist eftir.

Jónas Kristjánsson

DV